140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þyngra en tárum taki hvernig ríkisstjórnin hagar sér við frumvarpsgerð og hvernig málin eru öll sem hafa komið hingað inn. Ekki er hlustað á þá sérfræðinga sem að málinu koma, það er ekkert nýtt, en ég bar þá von í brjósti að ríkisstjórnin hefði lært eitthvað af því þegar hin svokölluðu Árna Páls-lög fóru hér í gegn. Það þurfti að höfða dómsmál á grunni þeirra sem endaði með því að Hæstiréttur komst að því að þau lög færu gegn stjórnarskránni.

Hér er ekkert verið að hugsa um faglega hluti enda kannski ekki margir vinstri menn í hópi lögfræðinga og lögmanna landsins. Ég veit ekki hvort þetta er vegna þess að ríkisstjórnin getur ekki fengið færa lögfræðinga eða hlustað á ráðgjöf þeirra hreinlega vegna pólitískra skoðana. (Forseti hringir.) Ég er jafnvel farin að halda það því að það er ekki nokkur einasta leið að fá ríkisstjórnina til að hlusta á (Forseti hringir.) þá færu lögmenn sem við eigum.