140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrðist á máli hv. þingmanns — ég bið þingmanninn að leiðrétta mig ef mér hefur misheyrst eða ef ég hef misskilið það sem fram kom — að hún væri því ekki fylgjandi, ef menn ætluðu að leggja á veiðigjald eins og þetta, að það rynni beint til viðkomandi byggðarlaga eða til einhverra verkefna.

Varðandi þær hugmyndir að veiðigjaldið renni beint til einstakra byggðarlaga langar mig að minnast á ályktun frá fjórðungsþingi Vestfirðinga, sem haldið var í Bolungarvík 2.–3. september 2011, en þar var skorað á Alþingi að tryggja að það auðlindagjald sem nú er innheimt af vestfirskum aflaheimildum og öll aukning þess rynni til uppbyggingar atvinnulífs á Vestfjörðum, þ.e. „auðlindagjaldið renni til rannsókna, nýsköpunar og í fjárfestingarsjóð fyrir vestfirskar byggðir“.

Spurningar mínar til hv. þingmanns snúa að því hvort ég hafi heyrt rétt, að þingmaðurinn sé mótfallin því að gjaldið sé beintengt með þeim hætti að fjármagnið renni í ákveðna sjóði. Ef þingmaðurinn er mótfallin því, eins og mér heyrðist, má þá ekki túlka það sem svo að ef það rennur beint í ríkissjóð sé það hreinn og klár landsbyggðarskattur eins og margir hafa verið að tala um? Það er þá skattur sem leggst á fyrirtæki á landsbyggðinni og er greiddur í ríkissjóð og fjármunir flytjast þá af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Ef við tengjum þetta ekki með einhverjum hætti, er þetta þá ekki hreinn og klár landsbyggðarskattur? Það var þetta sem mig langaði að fá upplýsingar um hjá hv. þingmanni.