140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:29]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þarna erum ég og hv. þingmaður ekki alls kostar sammála. Landsbyggðin hefur mátt glíma við mikinn vanda og það er ljóst að stærstur hluti útgerðarinnar er á landsbyggðinni þannig að þessi nýi skattstofn mun að stærstum hluta lenda á landsbyggðinni.

Mig langar í seinna andsvari mínu að spyrja hv. þingmann aðeins út í greinargerð sem unnin er af Daða Má Kristóferssyni, dósent við Háskóla Íslands, og Stefáni B. Gunnlaugssyni, lektor við Háskólann á Akureyri, sem gagnrýna mjög þetta frumvarp. Skýrslunni var dreift með frumvarpinu á sínum tíma og er óháð úttekt. Í henni er frumvarpið gagnrýnt efnislega á mjög sambærilegan hátt og flest sveitarfélög hringinn í kringum landið og fleiri hafa gert.

Hvað finnst hv. þingmanni um að hv. stjórnarliðar tali um að þessir hv. fræðimenn séu taglhnýtingar (Forseti hringir.) einhverra hagsmunasamtaka? Telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) að þessi skýrsla sé runnin undan rifjum einhverra hagsmunasamtaka líkt og (Forseti hringir.) hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa haldið fram?