140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni hvers vegna rétt væri að kalla þetta landsbyggðarskatt. Það er vegna þess að 80–90% þeirra sem greiða munu þennan skatt eru á landsbyggðinni. Við vitum að sjávarútvegsplássin hringinn í kringum landið standa og falla með því hvernig grundvallaratvinnugreininni gengur, sem og þjóðin öll að sjálfsögðu.

Við sjáum það í þeim athugasemdum sem borist hafa frá sveitarstjórnum hringinn í kringum landið um málið að það eru heimamenn, sveitarstjórnirnar heima fyrir, sem líta þannig á að hér sé sérstaklega verið að leggja auknar byrðar á landsbyggðina. Þetta er grundvallaratvinnugreinin okkar og hún er enn sterkari þar sem þessi fyrirtæki eru stærstu atvinnurekendurnir og halda í raun uppi byggð.