140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Spurning mín sneri líka að því hvort ekki væri óskynsamlegt að hafa þessi mál opin á sama tíma. (RM: Nei.) Það er mjög óskynsamlegt þó að hv. þm. Róbert Marshall svari því neitandi. Auðvitað er það óskynsamlegt en ríkisstjórnin tók þá ákvörðun um að umbylta okkar góða samfélagi eftir að hún komst til valda. Það finnst mér örlítið óhuggulegt og ég skil ekki markmiðið með því hjá ríkisstjórninni að ráðast inn í grunnþætti lífs okkar hér á landi. Það er alveg sama hvar gripið er niður, öllu þarf að breyta.

Samfylkingin segir að það hafi verið stjórnarskráin sem leiddi til bankahrunsins. Þannig er spuninn, fram og til baka, og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir segir með hnefann á lofti: Það verður að breyta kvótakerfinu. Þetta hugarfóstur hæstv. forsætisráðherra er farið að skaða íslenskt þjóðarbú og almannahagsmuni.

Þess vegna vildi ég fá álit hv. þingmanns á því hvort henni þyki ekki mjög óráðlegt að á sama tíma og verið er að rústa fiskveiðistjórnarkerfinu, sem fengið hefur tilnefningu til verðlauna fyrir gott gæðakerfi, á sama tíma og Evrópusambandsumsóknin er inni. Það er mjög einföld spurning. Ég finn því allt til foráttu því að einhver festa og stöðugleiki verður að vera fyrir okkur sem búum hér á landi þannig að við höfum eitthvert öryggi og getum horft til framtíðar, þannig að við getum treyst því að einhvers staðar komi inn stabílar tekjur í stað þess að henda öllu samfélaginu eins og spilastokk upp í loftið og enginn veit hvar kóngarnir og ásarnir lenda.