140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt að nú á að breyta ansi mörgu í samfélagi okkar. Ég tel að það sé ekki góður tími til að fara í þessar gríðarlegu breytingar á grundvallaratvinnugrein okkar nú þegar við þurfum að treysta svo mikið á þá grein og stóla á að hún standi sig og skili gjaldeyristekjum í ríkiskassann sem er galtómur þessa stundina.

En þegar efnahagsþrengingar og miklar breytingar eru — sumir tala um að þetta sé mesta kreppa sem skekið hefur ekki bara Ísland heldur heimsbyggðina — þá er tími nýrra hugmynda. Það er oft þannig að hugmyndir sem alla jafnan þættu frekar hættulegar fá brautargengi einmitt vegna þess ástands sem ríkir í samfélaginu.

Ég verð að segja, frú forseti, að það er afskaplega skrýtið að velja sér þennan tíma til að róta upp í grundvallaratvinnugrein okkar einmitt þegar við þurfum svo mikið að treysta á hana. En varðandi Evrópusambandið er ég á þeirri skoðun að við eigum ekki að vera að sækja um aðild að því, hvorki vegna stöðu sjávarútvegsins né annars. Þetta er ekki rétti tíminn, hagsmunum okkar er betur borgið utan sambandsins en innan, út frá hagsmunum sjávarútvegsins sem og vegna annarra auðlinda sem við eigum, en ekki síst út af efnahagsástandi þjóðanna almennt.

Við vitum ekki hvernig hlutirnir enda, þetta er ekki rétti tíminn til að sækja um. Ég hef reyndar ekki séð á hvaða rökum við byggjum umsókn okkar enda virðast afskaplega fáir hafa sannfæringu fyrir þeirri umsögn og vilja fylgja henni eftir.