140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir hvert orð sem kom fram í seinna andsvari hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um Evrópusambandið og að okkar hag sé best borgið fyrir utan það, sér í lagi í ljósi þess hvað er að gerast þar. Það er að færast í þá átt að verða eitt sambandsríki og þangað eigum við ekki erindi. Það hefur líka komið í ljós hversu eðlisólíkt það er að verða frá því sem það var þegar Samfylkingin lagði inn aðildarumsóknina sumarið 2009. Síðast í gær bárust til dæmis fréttir af því að Evrópusambandsleiðtogarnir séu að undirbúa lagasetningu um að stjórnvöld í ríkjum þess fái að taka upp eigið vegabréfaeftirlit. Það sýnir að þeir eru búnir að missa tökin á ástandinu því að frjálst flæði fólks er ein af fjórum grunnstoðum EES-samningsins. Mér finnst þetta mjög merkilegar fréttir. Um þetta á að leggja fram frumvarp á Evrópuþinginu. Ég tek þetta sem eitt dæmi um það breytingaferli sem Evrópusambandið stendur í.

Ég ítreka að mér finnst mjög undarlegt að hér sé verið að umbylta sjávarútvegskerfinu sem við höfum byggt á frá 1990 á sama tíma og Evrópusambandsumsóknin liggur á borði Evrópusambandsins. Mér finnst mjög óeðlilegt að hafa þessi tvö stóru mál opin á sama tíma, en ég ítreka að Framsóknarflokkurinn er tilbúinn til þess að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið í heild sinni. Framsóknarflokkurinn er líka tilbúinn að skoða það að útgerðin greiði hærra veiðigjald en nú er en það þýðir ekki að ég sé sammála þessu frumvarpi, alls ekki. Í því er um of miklar álögur að ræða og hér er ekki um að ræða gjald eins og frumvarpið gefur fyrirheit um heldur er þetta beinn skattur. Þá skal það líka heita skattur því að framkvæmdarvaldið getur ráðstafað skatti en gjöldunum getur það ekki ráðstafað á þann hátt sem það hugsar sér í frumvarpi þessu.

Allir þingmenn Framsóknarflokksins lögðu fram þingsályktunartillögu um framtíðarstefnu í sjávarútvegsmálum en hún var að sjálfsögðu svæfð í nefnd eins og önnur góð mál frá okkur framsóknarmönnum. Ég nefni til dæmis frumvarp mitt um lagaskrifstofu Alþingis sem ég hef lagt fram á hverju þingi. Við værum líklega á öðrum stað nú hefði lagaskrifstofa Alþingis verið stofnuð. Þá væri ekki þessi óvissa hér, þá værum við ekki að reyna að túlka lögin og lesa út úr þeim hvað raunverulega er átt við.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem við framsóknarmenn lögðum fram segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa samráðshóp til að leita leiðar til að móta skýra stefnu til lengri tíma í sjávarútvegsmálum. Hópurinn verði skipaður fulltrúum allra þingflokka, fulltrúum atvinnulífsins, launþega, sveitarfélaga, fyrirtækja í sjávarútvegi og annarra hagsmunasamtaka. Hópurinn leggi tillögur fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi síðar en 1. janúar 2012 og ráðherra leggi fram lagafrumvörp til innleiðingar þeirra í íslensk lög. Við vinnu hópsins verði áhersla lögð á eftirfarandi:

1. Sjávarauðlindin verði tryggð sameign þjóðarinnar með ákvæði í stjórnarskrá.

2. Stjórn fiskveiða verði blönduð leið, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hins vegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningu til nýsköpunar og nýliðun. Úthlutun veiðileyfa verði gerð með þeim hætti að skilgreina tvo potta, annars vegar pott með nýtingarsamningum og hins vegar pott þar sem veiðileyfum verði úthlutað til ákveðinna aðila. Frístundaveiðar verði kallaðar ferðaþjónustuveiðar til að atvinnugreinin geti dafnað á eigin forsendum ferðaþjónustunnar.

3. Veiðigjald/auðlindarentan sem sjávarútvegurinn greiðir verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðssetningar innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til landsvæða þar sem auðlindarentan verður til og hluti í ríkissjóð.

4. Hlúð verði að nýsköpun og enn frekari nýtingu hráefnis til að skapa verðmæti og auka arðsemi.

5. Tryggt verði að auðlindin verði nýtt á sem skynsamlegastan hátt og nýtingin verði byggð á grunni vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkisins.

6. Áhersla verði lögð á að sjávarútvegur sé ekki einungis veiðar heldur einnig hátæknivæddur matvælaiðnaður.

7. Sjónum verði í vaxandi mæli beint að umhverfislegum þáttum og augljósu samspili nýtingar hinna ýmsu tegunda hafsins til að tryggja áframhaldandi forustu Íslendinga á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins.“

Hvað getur verið betra, herra forseti, en þetta fyrirkomulag? Þetta var líklega of gott til að vera satt fyrir ríkisstjórnina því að hæstv. forsætisráðherra vill öðrum fremur fara fram með mál í ófriði þegar friður er í boði. Við höfum lagt fram þessa þingsályktunartillögu og rétt ríkisstjórninni sáttarhönd með þessari góðu tillögu um að allir aðilar komi að borðinu. Það er of gott til að vera satt því að Samfylkingin og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir leggja til breytingar breytinganna einna vegna. Jú, þau lofuðu því í kosningabaráttunni að hér ætti að fara fyrningarleiðina svokölluðu, innkalla allar aflaheimildir, en þau kosningaloforð virðast nú þvælast eitthvað fyrir ríkisstjórninni.

Ég man eftir því úr kosningabaráttunni, herra forseti, að það var eins og Samfylkingin ætlaði að breyta kvótakerfinu fyrir hádegi strax eftir kosningar. Þetta átti að vera svo einfalt mál. En hvað stöndum við uppi með rúmum þremur árum eftir síðustu kosningar? Jú, það er komið sumar, forsetakosningar í nánd, þrjú ár liðin frá kosningum og öll mál í upplausn. Er þetta ekki kunnuglegt frá þessari ríkisstjórn, herra forseti, svipað og stjórnlagaþingsklúðrið sem hefur nú þegar kostað 1.300 milljónir? Þá er ég með þjóðaratkvæðagreiðsluna inni í þeirri tölu. Svona eru vinnubrögðin.

Mig minnir líka að þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók við því starfi, hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, hafi hann ætlað sér tvær til þrjár vikur í að klára þau mál sem hv. þm. Jón Bjarnason, sem hefur verið níddur niður af þessari ríkisstjórn, hafði setið einn uppi með og reynt að breyta áður en hann var rekinn úr ríkisstjórninni. En það var lengri tíma hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og málið kom allt of seint inn í þingið.

Hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn tala nefnilega meira en þeir framkvæma, það er meiru lofað en hægt er að standa við. Þessi sjálfumglaða ríkisstjórn hefur ekki stjórn á hlutunum. Þetta er minnihlutaríkisstjórn, hæstv. forseti, það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Ríkisstjórnin þarf að sækja sér stuðning út fyrir eigin þingflokka, ekki síst til Hreyfingarinnar sem átti að vera hreyfiaflið á þingi, eins og menn muna, hreyfiaflið sem spratt upp úr búsáhaldabyltingunni. Það tók þá ágætu þingmenn ekki nema rúm tvö ár að ganga ríkisstjórninni beinlínis á hönd, beint upp í fangið á henni.

Ég hef farið nokkuð yfir lögfræðiþáttinn í þessu máli og tenginguna við stjórnarskrána í fyrri ræðum, en ég verð að nefna enn á ný að það sem fer mjög illa í mig í þessu frumvarpi er framsal skattlagningarvaldsins frá Alþingi. Í 77. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“

Í frumvarpinu er ekki aðeins lagt til að framselja þetta vald til ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála heldur á að fara niður á næsta stig, skipa þriggja manna nefnd sérfræðinga úti í samfélaginu og í raun eiga þeir að véla um það hve mikill skattur verður lagður á þessa atvinnugrein. Þetta er stórhættulegt ákvæði. Nokkrir þingmenn hafa bent á að verði þetta óbreytt að lögum, ef stjórnarþingmenn átta sig ekki á því, á það eftir að leiða til margra dómsmála vegna þess að samkvæmt núgildandi stjórnarskrá er algjörlega harðbannað að framselja skattlagningarvaldið með þessum hætti. Raunverulega skil ég ekki á hvaða leið ríkisstjórnin er með því að hafa þetta svona.