140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom aðeins inn á stjórnarskrána og hvort frumvarpið brjóti gegn ákvæðum hennar. Það hafa borist fjölmargar athugasemdir og umsagnir um þetta mál og í mörgum þeirra er tæpt á þessu atriði. Þar er meðal annars rætt um hvort skýrleiki réttarheimildarinnar fyrir gjaldtökunni sé nægjanlegur. Eins og hv. þingmaður kom inn á verður skattlagningarvaldið ekki framselt til framkvæmdarvaldsins og þess vegna þurfa allar álagningarforsendurnar að vera skýrar.

Mig langar að vita hvort hv. þingmaður hafi fengið skýringar á þessu í umræðunni, einhver svör frá þeim sem bera málið fram við spurningunni hvort þetta atriði hafi verið skoðað í nefndinni. Ég fékk einn hv. þingmann stjórnarliðsins, Helga Hjörvar, í andsvar við mig í gær þar sem ég spurði þessarar spurningar. Hv. þingmaður taldi þessar athugasemdir áhugaverðar og sagði að það þyrfti að skoða þær.

Þá er önnur spurning mín til hv. þingmanns: Hvenær er rétti tíminn til að skoða alvarlegar athugasemdir sem þessar, um að frumvarpið brjóti hugsanlega gegn stjórnarskrá, og þá bregðast við þeim eftir atvikum? Er það eftir að frumvarpið hefur verið samþykkt og gert að lögum og lagður hefur verið á þessi landsbyggðarskattur eða er það áður en Alþingi afgreiðir málið, þá væntanlega núna? Væri ekki rétt að nefndin tæki málið til sín og færi yfir þessi atriði?