140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Ég ætla að byrja á því sem einn þingmaður stjórnarliðsins sagði í morgun úr þessum ræðustól, að um tilraun væri að ræða. Mér finnst þetta merki um að þingmenn séu ekki nægilega með það á hreinu til hvers Alþingi er. Ég get á engan hátt tekið þátt í þessari tilraun, þeirri umbyltingu sem felst í þessum tveimur frumvörpum, en ef stjórnarmeirihlutinn lítur svo á að þetta sé tilraun er það mjög alvarlegt. Það finnst mér einmitt hafa komið fram í svari hv. þm. Helga Hjörvars, sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir ámálgaði, um að þetta þyrfti að skoða. Þegar þingmaðurinn spyr hvenær eigi að skoða þetta, þá er það núna. Nú er málið komið til 2. umr., og á milli 2. og 3. umr. er hægt að koma að breytingartillögum. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa enn tækifæri til þess að leiðrétta þetta og koma málinu í þann farveg að það standist stjórnarskrá. Því miður er bara enginn vilji til þess.

Þingið ver óþarflega miklum tíma í að ræða lagatæknilegar hliðar á frumvörpum frá þessari ríkisstjórn. Það er mjög sorglegt vegna þess að við þingmenn ættum náttúrlega fyrst og fremst að tala efnislega um málin. Ég minntist á lagaskrifstofu Alþingis áðan í ræðu minni og ég segi aftur að ef það væri vilji til þess hjá stjórnvöldum að styrkja þingið, bæði fjárhagslega og faglega, væri löngu búið að því. Viljinn er ekki til staðar, þess vegna er farið fram með svona mál sem standast ekki stjórnarskrá, þau gerð að lögum og þá rísa af því dómsmál. Við höfum dæmi um nokkra dóma sem hafa fallið hjá Hæstarétti um slík mál, gegn þessari ríkisstjórn.