140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég sé sammála hv. þingmanni um að sú aðferðafræði að stunda einhverjar tilraunir í skattlagningu sé ekki það sem Alþingi Íslendinga eigi að gera. Það er tæpast til þess fallið að efla virðingu þingsins eins og fjölmörgum þingmönnum er tamt að vísa til. Af lestri umsagna má sjá að það eru einna helst fjórar greinar stjórnarskrárinnar sem vísað er til að frumvarpið brjóti hugsanlega gegn: 40. gr., 72. gr., 75. gr. og 77. gr. Það að svo fjölþættar athugasemdir séu gerðar hlýtur eitt og sér að vera ástæða til að minnast á það og fara ítarlega yfir það í nefndinni.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um afturvirknina. Í stjórnarskránni er lagt bann við því að lög séu afturvirk. Skattlagning á ekki heldur að vera afturvirk, það er einfaldlega ekki heimilt. Þetta atriði tel ég óútskýrt og þeim athugasemdum hefur að mínu viti ekki verið svarað fullnægjandi af hv. þingmönnum meiri hlutans sem bera þetta mál fram. Það hefur hins vegar verið rökstutt að reglan í þessu frumvarpi varðandi skattheimtuna byggist á afturvirkni. Hvað segir hv. þingmaður um það? Telur hv. þingmaður þetta í lagi og að það standist stjórnarskrá?