140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeirri kenningu hefur oft verið fleygt að það sé markmið einhverra innan stjórnarliðsins að halda þessum málum í átakaferli. Ég hef aldrei viljað trúa því að það gæti verið markmið nokkurs manns að halda þessu máli af pólitískum ástæðum í átakaferli vegna þess að það hentaði að hafa átök um sjávarútvegsmálin, við vissum að uppi væri gagnrýni á núgildandi löggjöf og þess vegna hentaði það einhverjum í pólitísku skyni að hafa átök um málið.

Hafi einhver hugsað þannig, sem ég ætla ekki neinum í rauninni, held ég að flestum hafi orðið það ljóst eftir að frumvarp fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra var lagt fram á síðasta ári að þetta var ekki mjög þénugt í pólitísku skyni vegna þess að sú útreið sem stefna ríkisstjórnarflokkanna fékk í sjávarútvegsmálum eftir að það frumvarp hafði verið lagt fram, var auðvitað slæm. Við fundum að umræðan í þjóðfélaginu snerist við og menn áttuðu sig á ýmsum hlutum sem ekki höfðu legið jafnljósir fyrir áður. Segja má að hæstv. utanríkisráðherra hafi síðan rekið rothöggið á feril þess máls með fleygri setningu sinni um að frumvarpið væri bílslys. Það má síðan hafa ýmis orð um það mál.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á framsal skattlagningarvaldsins og það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur sem margir hafa nefnt í umsögnum og í umræðunni um málið. En hvað segir þá hv. þingmaður um það að þegar fyrir liggur frumvarp sem gagnrýnt er fyrir að fela í sér mikið framsal á skattlagningarvaldi? Þá bregst meiri hluti atvinnuveganefndar þannig við að hann eykur vald þessarar tilteknu þriggja manna nefndar, veiðigjaldsnefndar, sem menn hafa verið að vísa til að fái skattlagningarvald í hendur með einum eða öðrum hætti. Það sem vekur mér nokkra undrun er að brugðist er þannig við gagnrýni sem fram kom um málið frá virtum lögfræðingum, þ.e. að þarna sé of mikið framsal skattlagningarvalds, að verkefni (Forseti hringir.) nefndarinnar er aukið frá því sem það er í frumvarpinu sem liggur þó undir mikilli gagnrýni vegna hugsanlegt brot á stjórnarskrá.