140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Nú þegar ég kem upp í annað sinn í þessari umræðu um frumvarp til laga um veiðigjöld langar mig að setja málið í aðeins annað samhengi en ég gerði í fyrri ræðu minni og fjalla um þá ósk eða kröfu sem mikið hefur verið haldið á lofti í þessari umræðu og reyndar almennt í umræðu um sjávarútvegsmál undanfarin ár, að þjóðin fái sanngjarnan hlut í arðinum af veiðunum við Íslandsstrendur.

Mikið er rætt um það í þingsölum af stjórnarliðum að þessi ríkisstjórn muni loksins tryggja þjóðinni sanngjarnan hlut í arði fiskveiða á Íslandi. Til þess að hægt sé að ræða þessi mál af einhverri yfirvegun og af mátulegri hlutlægni er bráðnauðsynlegt að skoða aðeins sögu fiskveiða við Ísland undanfarna örfáa áratugi.

Í haust kom út skýrsla frá Arion banka, ég hygg að hún hafi komið út í októbermánuði, sem fyrir margra hluta sakir er fróðleg lesning. Hún heitir Íslenskur sjávarútvegur og er í tveimur hlutum. Í fyrri hlutanum er talað um þróun undirstöðuatvinnugreinar Íslands og í seinni hlutanum er fjallað um möguleg áhrif nýrrar fiskveiðilöggjafar. Þar er reyndar fjallað um fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, sem er ekki á dagskrá hér en tengist óneitanlega frumvarpi þessu um veiðigjöld. Það eru nokkur atriði í þessari skýrslu Arion banka sem mér finnst ástæða til að minna á þegar rætt er um þetta mál sem sagt er vera lagt fram á þingi til að tryggja þjóðinni arð af nýtingu auðlindarinnar. Á bls. 16 í þessari skýrslu er til að mynda dregin upp tafla af hagnaði sjávarútvegsgreinarinnar undanfarna áratugi og kemur skýrt fram að á árunum á milli 1980 og 1990 var íslenskur sjávarútvegur einfaldlega rekinn með tapi. Tap sem hlutfall af tekjum sjávarútvegsfyrirtækjanna var á þessum tíu árum, árabilinu 1980–1990, frá 1% og upp í 9% — tap af veltunni var allt upp í 9%. Þannig var þetta hér á níunda áratugnum. Það er líka áratugurinn þar sem tekin var ákvörðun á Alþingi um að kvótasetja réttinn til fiskveiða. Þá var kvótakerfið tekið upp og við höfum byggt á því frá árinu 1984.

Næstu stóru tíðindi á myndinni sem er á bls. 16 í skýrslunni verða frá árinu 1991 þegar framsalið er gefið frjálst. Það verða mjög skörp skil bæði við kvótasetninguna og við það að framsal aflaheimilda er gefið frjálst vegna þess að frá þeim tíma, frá árinu 1991, verður til hagnaður af reglulegri starfsemi í rekstri íslenskrar útgerðar. Hann var ekki mikill í fyrstu og þann áratug sem tók við, þ.e. upp frá svona 1990 til ársins 2000, var hagnaðurinn í útgerð mjög takmarkaður. Hann náði hámarki í um 5% en var annars á bilinu 0 til 2–3% af reglulegri starfsemi.

Það skyldi því engan undra að á níunda áratugnum og á fyrsta áratug þessarar aldar var ekki hávær umræða um að innheimta veiðigjald. Öllum var ljóst að útgerðin risi ekki undir háu veiðigjaldi. Arður af útgerð sem á að skila sér til þjóðarinnar hefur hins vegar beinlínis orðið til vegna kerfisbreytinganna. Þegar við horfum á þessa mynd og lítum lengra eftir tímaásnum sjáum við hvað gerist í framhaldi af því að heimildirnar leita til þeirra sem hæfastir eru til að gera út. Sumir hætta, það er dregið úr offjárfestingu, sóknargeta skipaflotans er aðlöguð að afrakstursgetu stofnanna og þá fara hlutirnir að lagast.

Í þessu samhengi er það þess vegna fullkomlega eðlilegt þegar við horfum til baka að auðlindanefndinni skyldi hafa verið komið á einmitt þegar hlutirnir eru að komast í mjög gott lag. Það er skiljanlegt að í kringum árið 2000 hafi menn farið að velta fyrir: Ja, þar sem við höfum takmarkað svo mjög aðganginn að auðlindinni og útgerðin er farin að ganga betur, er þá ekki kominn tími til að ræða hvort við þurfum ekki að skipta auðlindarentunni, umframhagnaðinum, sem verður til sérstaklega vegna þess að aðgangurinn að auðlindinni hefur verið takmarkaður?

Það var gert. Skýrsla auðlindanefndarinnar kom fram og færðar voru reglur í lög sem kváðu á um skyldu til að greiða þetta sérstaka gjald. Málið sem við erum að ræða hér byggir á þessari þróun, það byggir á ákvörðunum sem voru teknar fyrir löngu síðan. Að öðrum kosti væri enginn að ræða um að taka neitt veiðigjald yfir höfuð, ef ekki hefði komið til kvótasetningarinnar og ef ekki hefði komið til þess að framsal aflaheimilda var gefið frjálst á sínum tíma.

Ég dreg þetta hér fram, eins og ég sagði í upphafi, því að ég vil taka þetta með í umræðuna um það hvernig hægt er að tryggja þjóðinni hæfilegan eða sanngjarnan hlut í afrakstri greinarinnar. Það sem ég er að segja er þetta: Við gerum það best með því að skapa greininni sem hagkvæmust skilyrði þannig að við tryggjum að það sé hagkvæmt og skilvirkt að gera út á Íslandi. Reyndar hefur okkur tekist svo vel með kvótakerfinu og með framsalsreglunum sem gilt hafa að við erum orðin fyrirmynd annarra þjóða.

Hvers vegna skyldu aðrar þjóðir öfunda okkur Íslendinga af fiskveiðistjórnarkerfinu hér á landi? Ætli það sé fyrst og fremst vegna þess að þær sjá að við höfum svo mikið upp úr veiðigjaldinu sem lagt var á hér á sínum tíma? Nei, allir sem horfa hingað vita að þegar útgerðinni gengur vel mun arðurinn af veiðunum skila sér víðs vegar út í samfélagið í tekjuskatti útgerðarinnar sjálfrar.

Það er farið ágætlega yfir það í skýrslu Arion banka hvernig tekjuskattur útgerðarinnar hefur verið. Það er t.d. mjög athyglisvert að á árunum 2003–2005 voru greiddir tekju- og eignarskattar sjávarútvegsins hærri en alls iðnaðar í landinu fyrir utan fiskvinnsluna. Ef við skoðum lengra tímabil greiddi sjávarútvegurinn að meðaltali um 1,5 milljarða á ári í skatta, þ.e. á tímabilinu frá 1999–2008, sem var auðvitað gríðarleg breyting frá þeim tíma sem ég vísaði til áðan, fyrir árið 1990, þegar útgerðarfyrirtækin voru meira eða minna upp á opinbera styrki komin. Þannig er það því miður enn í svo mörgum öðrum löndum, t.d. í Evrópusambandinu.

Nú er ríkisstjórnin í viðræðum við Evrópusambandið um að við undirgöngumst fiskveiðistjórnarstefnu þess. Þar er málum svo fyrir komið í dag að Evrópusambandið setur ekki 1 milljarð í sjávarútvegsfyrirtækin í styrki á ári, ekki 5 og ekki 10 milljarða — nei, það fara 100 milljarðar á ári í styrki frá Evrópusambandinu til útgerðarinnar og umræða um veiðigjald er lítil. Það er ekkert svigrúm fyrir veiðigjald. Það er vegna þess, eins og tölurnar bera með sér, að peningar streyma úr opinberum sjóðum til útgerðarinnar.

Er ekki rétt að taka þetta með í myndina þegar við tölum um það hvernig við með lögum og reglum getum tryggt þjóðinni arð af útgerð? Ég tel að minnsta kosti að það sé nauðsynlegt. Þess vegna tel ég að það sé mjög erfitt að taka umræðu um þetta mál án þess að ræða um fyrirhugaðar breytingar á stjórn fiskveiða, en frumvarp um það efni er nú í atvinnuveganefnd. Það er í raun og veru fráleitt að við séum að ræða um hugmyndir á borð við þær sem hér liggja frammi, þ.e. að stórauka gjaldtöku af greininni, án þess að það liggi fyrir með hvaða hætti umhverfi greinarinnar verður næstu árin. Það mun m.a. skýrast af afdrifum þess frumvarps. Í skýrslunni sem ég hef hér vitnað til frá Arion banka og reyndar í umsögnum allflestra aðila sem hafa skilað hingað til þingsins áliti sínu kemur mjög skýrt fram að það er verið að draga úr arðsemi veiðanna í því frumvarpi, sem mun aftur bitna á getu greinarinnar til að skila arði af veiðum til þjóðarinnar, sem menn segjast þó í hinu orðinu vera að einblína á.

Ég rakti það áðan að á sínum tíma hefði starfað auðlindanefnd og í kjölfar vinnu nefndarinnar hefði verið komið á veiðigjaldi. Í svari til hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, sem er frá því í fyrra, frá sjávarútvegsráðherra kom fram hvernig það gjald hefði þróast undanfarin ár og hvernig það hefði skipst eftir byggðarlögum. Það er nokkuð fróðlegt svar og er að finna á þskj. 380 frá þessu löggjafarþingi, 223. mál. Eins og sjá má í fyrsta lið svarsins hefur veiðigjaldið í sjálfu sér ekki verið mjög hátt framan af, það hefur verið á bilinu 600 milljónir upp í 1 milljarð, árin 2010–2011 3 milljarðar, og svo er áætlað í svarinu að það verði aftur um 3 milljarðar. Miðað við þær hugmyndir sem við erum að ræða eru þetta kannski ekki mjög háar tölur. Ég vil þó taka það fram að nokkuð breið samstaða var um það í upphafi að hefja töku veiðigjalds með hóflegu gjaldi.

Nú er þetta mál sem sagt lagt fram, sem leit þannig út í upphafi að gera mátti ráð fyrir að hið nýja gjald yrði upp undir 25 milljarðar. Það kemur nú breytt inn í þingið og er dregið úr því og menn segja: Ja, ætli það verði ekki svona 15 milljarðar eða eitthvað svoleiðis. 15 milljarðar eru um það bil þrjátíuföldun frá árinu 2005, sem er um það bil fimmtánföldun frá 2009–2010 og um það bil fimmföldun á gjaldinu frá 2010–2011. Menn segja að þetta sé auðlindarenta.

Ég tók upp við hv. þm. Skúla Helgason hér í andsvari í gær hvenær hann teldi að auðlindarenta myndaðist, hvenær útgerðin hefði hagnast svo mikið á rekstri sínum að við gætum farið að ræða um auðlindarentu sem bæri að skipta með einhverjum tilteknum hætti. Þingmaðurinn sagði það ekki áhugaverða spurningu. Hann taldi að menn ættu bara að greiða fyrir aðganginn sjálfan, sem fékk mig aftur til að hugsa: Ja, kannski erum við ekki að ræða um sama málið. En málinu var í upphafi teflt fram sem máli um auðlindarentu. Nú er gjaldið svo sem tvískipt, annars vegar fast gjald en bróðurparturinn af þessari háu tölu kemur af því sem menn segja vera auðlindarentu. Gallinn við þennan málflutning stjórnarliða og meiri hluta nefndarinnar, sem kemur nú með málið inn í þingið, er sá að menn viðurkenna um leið að það eigi eftir að finna út hvernig eigi að reikna auðlindarentuna. Því er vísað áfram í veiðigjaldsnefnd að fínstilla það allt saman, sem dregur fram eins skýrt og hægt er í raun og veru að málið var algjörlega vanbúið þegar það kom til þingsins. Allt er þetta vinna sem sjálfsagt og eðlilegt er að gera kröfu til að unnin sé í ráðuneytinu áður en málið er lagt fram.

15 milljarðar, segja menn núna. Í október sl. kom fram skýrsla frá ríkisstjórninni, fjármálaráðuneytinu, Ríkisbúskapurinn 2012–2015. Þá var kynnt til sögunnar hvernig menn hygðust með annars vegar aðhaldsaðgerðum og hins vegar tekjuaukandi aðgerðum ná frekari jöfnuði í ríkisfjármálum. Í hinum sérstöku tekjuaðgerðum var veiðigjaldið einn undirliðurinn. Í október sögðu menn að þeir ætluðu að taka 4,5 milljarða umfram það sem við höfum hingað til séð tekið í veiðigjald. Það hefði þýtt að á árunum 2013, 2014 og 2015 hefði veiðigjaldið legið einhvers staðar í kringum 10 milljarða. Síðan líða nokkrir mánuðir og þetta frumvarp kemur inn í þingið. Þá segja menn: Ja, núna erum við að hugsa um að taka 25 milljarða. Svo fer málið til nefndar, það kemur í þingið og þá er sagt: Ja, ætli það sé ekki hæfilegt að það séu 15 milljarðar? Sjónarmið okkar í Sjálfstæðisflokknum og fjölmargra umsagnaraðila, einnig sjónarmið sem heyrist sterkt í umræðunni hér frá Framsóknarflokknum er: Þetta enn of hátt. Þá er viðkvæðið: Já, en við erum búin að lækka þetta svo mikið, við erum búin að lækka þetta úr 25 niður í 15.

Má ég vekja athygli á því að 15 milljarðar eru um það bil 50% hærri tala en er í fjárlögunum og í þessari skýrslu um ríkisbúskapinn frá árinu 2012 til 2015. Það er því fráleitur málflutningur að ræða um að ríkisstjórnarflokkarnir hafi tekið eitthvert sérstakt tillit eða hafi gefið eftir. Talan er einungis komin úr 25 niður í 15 vegna þess að það er það minnsta sem ríkisstjórnin treystir sér til að mæla með, stjórnarflokkarnir og nefndin sem kom með málið hingað inn, án þess að ógna stöðugleika í greininni. Hefðu menn haldið sig við hærri töluna lá fyrir að þeir gerðu fjöldann allan af fyrirtækjum í greininni gjaldþrota, sendu menn í greiðsluþrot. Það hefði kallað yfir okkur gríðarleg vandræði á erfiðum tímum þegar greinin er að rétta úr kútnum og skila okkur þeim mikilvægu gjaldeyristekjum sem raun ber vitni.

Ég ætla að nota síðustu mínútuna í ræðu minni til að vekja athygli á því að það þarf ekki að vera sá ágreiningur um þessi mál sem ríkisstjórnin hefur komið þeim í. Það er ágætissamhljómur milli flokka um að hægt sé að hækka veiðigjaldið. Ég tel að það sé grundvöllur fyrir ágætri sátt við greinina sjálfa um að taka aukna auðlindarentu af henni. Lykillinn liggur í því að komast að samkomulagi um hvernig auðlindarentan verður reiknuð og síðan hvernig henni eigi að skipta í framhaldinu. Auðlindarenta í þessum skilningi er hinn svokallaði umframhagnaður vegna forgangs að nýtingu auðlindarinnar sem sjávarútvegsfyrirtækin í landinu hafa. Um þetta á ekki að þurfa að vera svo mikill ágreiningur. Hann er fyrst og fremst vegna þess að menn koma með vanbúið mál inn í þingið og reyna að þrýsta því í gegn án þess að hlusta á sjónarmið sem fram koma í umræðunni og eru málefnaleg. (Forseti hringir.) Ég ætla að segja að lokum að það þarf heldur ekki að vera ágreiningur um stjórn fiskveiða (Forseti hringir.) vegna þess að sáttanefndin lagði grunn að sátt í því máli á sínum tíma.