140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir þetta svar. Það er akkúrat mergurinn málsins að íslenskur sjávarútvegur er ekki ríkisstyrktur en sjávarútvegur Evrópusambandsins er það. Þingmaðurinn vísaði í upplýsingar frá Noregi sem eru mjög mikilvægar fyrir okkur, að um leið og dregið er úr ríkisstyrkjum eflist atvinnugreinin. Þetta er afar mikilvægt.

Varðandi spurningarnar sem ég lagði fram sá ég að þingmaðurinn féll á tíma í seinni spurningunni þannig að ég ætla að bera hana fram aftur. Telur þingmaðurinn að skattlagningarframsalið sem á sér stað í frumvarpinu brjóti ekki gegn 77. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að Alþingi eitt megi leggja á skatt í gegnum lagafrumvörp? Mig langar að fá álit þingmannsins á þessu atriði.