140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ágæta ræðu hér áðan, sérstaklega þó undir lokin þegar hv. þingmaður sagði að ágætur samhljómur væri um meginsjónarmiðin í þessum málum. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni, það er ágætur samhljómur um meginsjónarmiðin. Ég hef haft það á tilfinningunni í þessari umræðu, sem er búin að standa yfir í tæpa viku núna, að við séum að leggja dálítið á okkur í að finna ágreining um meginsjónarmiðin. Mér finnst þau liggja fyrir vegna þess að það liggur mikil vinna að baki, ekki bara þessu eina máli heldur hafa menn í áratugi unnið að þessu og í grófum dráttum komist að sömu niðurstöðu.

Niðurstaða auðlindanefndarinnar, sem hv. þingmaður nefndi áðan, svo að ég vitni til hennar, með leyfi forseta, er að „rétt sé að stefna að greiðslu fyrir afnotarétt af öllum auðlindum sem eru í eigu ríkis eða þjóðar af tvennum ástæðum: annars vegar til að greiða kostnað ríkisins af stjórn og eftirliti með viðkomandi auðlind, hins vegar til að tryggja þjóðinni í heild sýnilega hlutdeild í þeim umframarði (auðlindarentu) sem nýting hennar skapar“.

Um það snýst þetta mál. Þetta er sama niðurstaða og endurskoðunarhópurinn 2010 komst að þegar hann skilaði gögnum sínum af sér sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson notar sem röksemdafærslu í bókun sinni með skýrslunni. Það er ekki verið að gera aðrar breytingar á heildarstjórnarkerfi sjávarútvegs. Það á að halda sig við aflahlutdeildarkerfið, aflamarkskerfið, og litið er til lengri tíma með nýtingarsamningum til 20 ára, úthluta yfir 90% af aflaheimildum til 20 ára o.s.frv. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Er hann andvígur þeim meginsjónarmiðum að auðlindagjald taki mið af arðsemi í greininni annars vegar, sé nátengt arðsemi í greininni, (Forseti hringir.) og hins vegar af þeim hluta sem er fastur til að standa undir rekstri greinarinnar af hálfu hins opinbera?