140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:00]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er í rauninni efnislega að segja það sama og segir í skýrslu fræðimannanna Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvert tekjutapið verður fyrir íslenskan sjávarútveg ef þetta nær fram að ganga.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort það sé ekki mikilvægt, í ljósi þess að það er ekki búið að slá neinum tölum á það hvaða neikvæðu áhrif þetta frumvarp eitt og sér mun hafa á öðrum sviðum, að reyna að gera einhverja úttekt á því áður en þetta frumvarp nær fram að ganga.

Síðan langar mig að spyrja í ljósi þess sem hv. þingmaður benti á í ræðu sinni og kemur fram í skýrslunni frá þessum óháðu fræðimönnum: Hvað finnst hv. þingmanni um það að þeir sem gagnrýna frumvarpið málefnalega, eins og þessir ágætu fræðimenn og margir þingmenn hafa gert, sveitarfélög og aðrir, (Forseti hringir.) séu titlaðir taglhnýtingar Landssambands íslenskra útvegsmanna af hv. stjórnarliðum þingflokks Samfylkingarinnar þegar þeir tala um þá?