140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sá mikinn undrunarsvip á hv. þm. Birni Vali Gíslasyni að ég skyldi koma í andsvar því að ég mótmælti störfum hans á þinginu í gær og fór ekki í andsvar við hann vegna ummæla sem hann viðhafði í þessum ræðustól sem fóru langt yfir öll mörk, þ.e. þegar hann taldi að hér væri drukkinn þingmaður í húsinu. En starfs míns vegna og mikilvægis þessa máls sem við ræðum nú ætla ég að svara þessari spurningu.

Framsóknarflokkurinn hefur ætíð verið reiðubúinn til sátta í málinu og við í Framsóknarflokknum höfum rétt út margar sáttarhendur í þessu máli sem og öðrum. En samráð gengur ekki út á einræði, og ég vona að hv. þingmaður viti hvert ég er að fara með því. Það eru margir sáttafundir búnir að vera í málinu en þá kemur alltaf ein lína frá ríkisstjórninni og ríkisstjórnin er ekki tilbúin til sátta.

Við framsóknarmenn viljum að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu verði lýstar þjóðareign, það er skýrt. Við viljum að nýting þeirra sé skynsamleg og sjálfbær. Við viljum taka upp auðlindagjöld, það er allt rétt sem hv. þingmaður fór yfir áðan, þannig að það er samhljómur með þessu frumvarpi og stefnu Framsóknarflokksins. Þingmaðurinn fór yfir fastagjaldið og gjald sem er nátengt afkomu en við viljum að það sé kallað réttum nöfnum.

Þegar um gjald er að ræða er það gjald en þegar er um skatt að ræða skal það líka heita skattur en ekki vera dulbúin skattheimta í formi gjalda. Það er því mikill samhljómur með frumvarpinu og stefnu Framsóknarflokksins í þessum málum, en það er ekki þar með sagt að við í Framsóknarflokknum gerum ekki kröfu á að frumvarpinu verði breytt í þá átt að það muni samrýmast stjórnarskránni, þótt ekki sé annað. (Forseti hringir.) Það er lágmarkskrafa að ríkisstjórnarflokkarnir hlusti á þá kröfu okkar framsóknarmanna.