140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það var enginn undrunarsvipur á mér yfir því að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir skyldi bregðast við andsvari mínu enda tilkynnti þingflokksformaður Framsóknarflokksins mér það í gær að Framsóknarflokkurinn mundi ekki taka þátt í þeim leik sem Sjálfstæðisflokkurinn er í og virði ég það mikils. Ég var ekkert hissa á því.

Hins vegar er það athyglisvert sem kemur fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og harmónerar við það sem ég sagði áðan að það er sterkur samhljómur með stefnu Framsóknarflokksins í þessum málum, með málflutningi Framsóknarflokksins og framsóknarmanna í gegnum tíðina og þeim áherslum og þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í frumvarpinu. Þó að við deilum um stærðirnar í svokölluðum hluta 2 eða potti, um upphaf veiðigjalds o.s.frv. er mikill samhljómur um meginsjónarmiðin. Sá samhljómur hefur æ oftar komið fram í atvinnuvegnanefnd og því starfi sem þar hefur verið unnið varðandi þetta frumvarp, sem er mjög mikið. Það er hins vegar ekki rétt sem hv. þingmaður nefndi áðan og fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa talað um að þetta sé gert án samráðs og ekkert tillit tekið til umsagna. Fyrir liggja ítarlegar breytingartillögur við málið sem byggðar eru á þeim umsögnum og athugasemdum sem atvinnuveganefnd bárust vegna þess og vegna þeirra gagna sem atvinnuveganefnd kallaði eftir meðal annars hjá sérfræðingum. Atvinnuveganefnd fór að rýna frumvarpið betur og kanna betur ákveðna þætti. Á þeim byggjast umfangsmiklar breytingartillögur við málið. Það hefur því auðvitað verið tekið tillit til umsagna sem komið hafa og málið sjálft byggist á samráði allra aðila úr sjávarútvegi, ekki bara í ár (Forseti hringir.) heldur á undanförnum árum enda eru meginsjónarmiðin löngu komin fram í málinu.