140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og hrósa þingmanninum fyrir að hlusta á þær raddir sem berast okkur inn á þing, þ.e. fyrir lesa þær umsagnir sem berast okkur um þetta mál og bregðast við þeim.

Hv. þingmaður minntist aðeins á það sem fram hefur komið varðandi Landsbanka Íslands, um þær afskriftir sem bankinn telur að hann þurfi að ráðast í verði þetta frumvarp að veruleika. Það er aðeins tæpt á þessu í nefndaráliti 2. minni hluta sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, fulltrúi framsóknarmanna í atvinnuveganefnd, flytur. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í hvaða afleiðingar þetta frumvarp muni hafa, ekki aðeins á Landsbankann heldur á bankakerfið í heild út frá þessum upplýsingum, hvort hún geri sér grein fyrir því, og þá hvort þetta atriði hafi fengið einhverja umfjöllun í þinginu, hvort það hafi komið fram í umræðunni um þetta mál hér með hvaða hætti meiri hluti nefndarinnar og nefndin fjallaði um þetta og hvort menn hafi virkilega ekki haft neinar áhyggjur af þessu atriði.

Ég sé ekki að það hafi verið lögð fram nein gögn eða neinir útreikningar á því hvaða afleiðingar þessar breytingar á frumvarpinu munu hafa eða hvað þær munu hafa í för með sér. Fullyrt er að skatturinn verði ekki nema 15 milljarðar kr. meðan aðrir sem telja sig hafa reiknað þetta út segja að um sé að ræða 21 milljarð kr. Þá langar mig jafnframt að spyrja hv. þingmann að því hvort hún telji ekki að ýmislegt sé óunnið í þessu máli, hvort það sér ekki æskilegt að fram fari nánari gagnaöflun þannig að við áttum okkur betur á því hvað það er nákvæmlega sem farið er fram á að við samþykkjum.