140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Hv. þingmaður talaði líka mikið um það í ræðu sinni hvernig samráði hefði verið háttað við tilurð þessa máls og fór jafnframt aðeins yfir það í andsvari við annan þingmann hvernig Framsóknarflokkurinn vildi haga málum. Ég gat ekki heyrt betur en að hv. þingmaður teldi að hægt hefði verið að leggja fram frumvarp á grundvelli sáttar, það hefði verið hægt að vinna málið með þeim hætti að við værum ekki með allt í hers höndum í þinginu vegna þess að vinnubrögðin eru slík að menn geta einfaldlega ekki sætt sig við það frumvarp sem hér liggur frammi.

Hvernig hefði Framsóknarflokkurinn stýrt þessu máli? Hvað er það sem hv. þingmaður leggur til að gert verði í stöðunni varðandi þetta mál? Er eina leiðin sú að taka þetta mál, henda því og byrja upp á nýtt eða sér hv. þingmaður einhverja aðra leið? Ég tel að mjög mikilvægt á þessum tímapunkti að við áttum okkur á því hvað það er í raun og veru sem við viljum gera með þetta mál vegna þess að mér hefur þótt þingmenn flestallra flokka sem hafa talað í þessari umræðu tala með þeim hætti að þeir vilji setjast saman yfir hlutina og reyna að ná einhverju samkomulagi og niðurstöðu sem menn geta orðið ásáttir um. Auðvitað er það þannig þegar gerðar eru málamiðlanir að ekki fá allir allt sem þeir vilja. En málið er í hnút og vinnubrögðin eru ekki til fyrirmyndar. Hvað leggur hv. þingmaður nákvæmlega til að verði gert og hvernig hefði þetta mál verið unnið hefði hv. þingmaður fengið að hafa puttana í því?