140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp sem varðar ekki bara eina atvinnugrein heldur þjóðarhag. Þetta varðar alla Íslendinga og sérstaklega heimilin í landinu. Það kemur til af því að Ísland hefur alla tíð að mestu átt sitt undir fiskveiðum og þess vegna er þetta afskaplega stórt mál í hugum Íslendinga. Þetta hefur með velferð okkar að gera og afkomu. Þess vegna er þetta mál jafnheitt og raun ber vitni. Í gær voru á Austurvelli mótmæli þar sem sjómenn mættu í stórum hópum. Sá hópur fólks er ekki vanur því að mæta og mótmæla en sá sig knúinn til að gera það.

Það var áhugavert að sjá nokkra einstaklinga, fólk sem er vant að mótmæla og gerir kannski ýmislegt annað, ég veit ekkert um það, en það virtist nálgast þá staðreynd að hér væri annað fólk að mótmæla með því að segja: Hver bauð þér í þetta partí? Fleiri hundruð manns, hátt í 2 þús. sjómenn, mótmæltu að vonum þessu frumvarpi sem mun ekki bara koma niður á þeim heldur allri þjóðinni.

Þegar við skoðum þessi mál og setjum þau í samhengi er það þannig að við Íslendingar höfum lifað af fiskveiðum frá örófi alda. Það var áhugavert, virðulegi forseti, að hlusta á útvarpsþáttinn Við sjávarsíðuna um daginn þar sem fornleifafræðingur upplýsti að þvert á það sem haldið hefur verið höfum við ekki lifað af sauðkindinni. Við höfum fyrst og fremst lifað af fiski. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að við höfum veitt þorsk við Íslandsstrendur og ýmislegt annað skipulegar en áður hefur þekkst, bæði til að neyta innan lands og til að selja til útlanda. Mér þótti þetta í sjálfu sér ekki ótrúlegt en það hefur lítið verið í umræðunni.

Við höfum hins vegar ekkert alltaf hagnast af atvinnugreininni, jafnskrýtið og það er. Við börðumst hatrammlega fyrir því að fá hér efnahagslögsögu og enduðum á því að vinna fullnaðarsigur, ná 200 mílna efnahagslögsögu. Þá héldu menn að við mundum hagnast verulega á fiskveiðum. Varð sú raunin? Nei, við gerðum það ekki. Það skiptir nefnilega máli hvernig fiskveiðistjórnarkerfið er og það eru ekkert mjög mörg ár síðan við vorum í sömu stöðu og margar aðrar þjóðir, við notuðum skattpeninga landsmanna til að greiða niður útgerðina. Það eru ekki mörg ár síðan við miðuðum allar efnahagsaðgerðir við að bjarga útgerðinni.

Menn kynnu að segja: Var þetta eitthvað séríslenskt? Nei. Í heiminum er almenna reglan sú að það er tap á sjávarútvegi. Í sjávarútveginum í heild í heiminum er tap og meðan veltan er 80–90 milljarðar dollara er niðurgreiðsla skattgreiðenda til greinarinnar 5–20 milljarðar dollarar. Við erum með fiskveiðistjórnarkerfi þar sem við erum að rífast um það hversu mikið eigi að skattleggja, hversu mikið eigi að taka í sameiginlega sjóði landsmanna og það er lúxusvandamál. Ég legg á það áherslu vegna þess að þessi fullkomlega vanhæfa ríkisstjórn lítur ekki neitt til þess. Það er fullkomlega óþolandi að við skulum ræða grundvallarmál sem snertir hvert einasta heimili í landinu og erum ekki með nein einustu gögn um það hvaða áhrif þetta hefur á íslensk heimili. Hv. stjórnarþingmönnum er nákvæmlega sama og þeim hefur alltaf verið það.

Svipuðu frumvarpi og hér liggur fyrir var hent inn í þingið í fyrravor með viku fyrirvara og það var sagt við okkur þingmenn: Klárið þetta. Alveg eins og nú sögðu allir umsagnaraðilar þá: Þetta er fullkomin vitleysa. Krafa þessarar vanhæfu vinstri stjórnar var þá eins og nú: Klárið þetta. (Gripið fram í.) Nokkrum mánuðum seinna — og hér glottir hæstv. ráðherra sem ég veit ekki hvaða embætti gegnir því að hann er með svo mörg ráðuneyti að ég man þau ekki öll. Gott ef hann hlær ekki, hann hlær að íslenskri þjóð. Hann hlær að heimilunum í landinu. (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega það sem hann gerir því að hann hefur ekki enn komið með úttekt á því hvaða áhrif þetta hefur á heimilin í landinu. (Sjútvrh.: Ég hlæ að þér.) Nú er hæstv. ráðherra farinn á taugum og byrjaður að kalla fram í. Ég fagna því. Er það eitthvað sérstakt sem hæstv. ráðherra vill koma á framfæri? (Sjútvrh.: Ég sagðist sjá hvaða áhrif þetta frumvarp hefði á þig.) Já, já. Hæstv. ráðherra er mjög vinstri sinnaður maður og vinstri sinnaðir menn hugsa almennt bara um sjálfa sig þannig telur hann að aðrir hljóti að vera þannig líka. Þess vegna kallar hann fram í: Ég veit hvaða áhrif frumvarpið hefur á þig. Hér er hæstv. ráðherra að hugsa um sjálfan sig. Þetta er einkenni mjög vinstri sinnaðra einstaklinga. Þeir geta aldrei hugsað nema bara um sína eigin þúfu. Þessi hæstv. ráðherra telur að þetta muni ekki hafa áhrif á hann persónulega og prívat. Að vísu sagði hann á fundi þegar við vorum að ræða veiðigjaldið: Ég, ríkið, fæ meiri pening. Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði það á stórum fundi.

Ég hlustaði á það hvaða áhrif þetta frumvarp hefur á hæstv. ráðherra, ég sá það ekki, en það hefur ekkert með þjóðarhag að gera. Svo ég klári það sem ég var að tala um, nokkrum mánuðum eftir að þessu handónýta frumvarpi var hent inn í þingið fyrir ári kom ráðherra í ríkisstjórninni, ekki stjórnarandstöðuþingmaður heldur ráðherra í ríkisstjórninni, og sagði: Heyrðu, þetta frumvarp þarna sem við heimtuðum að yrði klárað á viku var algert bílslys, það var þvílíkt slys, það var bílslys. (Gripið fram í.)

Hverjir komu í veg fyrir að þetta bílslys færi í gengum þingið? Það voru hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem settu fótinn niður alveg eins og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar gera núna. Það er alveg sama á hvaða vinnustað viðkomandi er, ef hann sér stórslys í vændum verður hann að gera það sem hægt er til að koma í veg fyrir það. Það á sérstaklega við á þessum vinnustað. Þess vegna erum við hér á föstudagskvöldi og við verðum hér á laugardagskvöldi til að reyna að koma í veg fyrir þetta stórslys. Ég vek athygli á því að það hefur aldrei verið gerð nein úttekt á því hvaða áhrif þetta hefur á heimilin í landinu.

Þegar reynt var að henda síðasta bílslysi í gegnum þingið komu forstöðumenn ríkisbankans á fund viðskiptanefndar og útskýrðu að þetta mundi ríða bankanum að fullu. Menn geta ekki kennt einhverjum hæstv. ráðherra sem hent hefur verið út úr ríkisstjórninni í pirringskasti forustumanna hennar um það mál vegna þess að margoft hefur komið fram að það var unnið undir forustu hæstv. forsætisráðherra. Bílslyssfrumvarpið var unnið þannig. En viðkomandi bankastjórar sögðu: Ríkisbankinn mun ekki þola þetta. Maður skyldi ætla að þegar næsta atlaga yrði gerð að fólkinu í landinu, að almannahagsmunum, með því að koma með nýtt sjávarútvegsfrumvarp mundu menn kanna hvaða áhrif það hefði á bankann sem skattgreiðendur bera ábyrgð á. Mundi maður ekki ætla það? Er það ekki eðlilegt? Er það ekki með því allra fyrsta sem menn gera? Er það ekki einhvern veginn þannig? Nei, ekki þessi vanhæfa vinstri stjórn. Hún lætur sér ekki nægja að brenna sig einu sinni, hún vill brenna sig oftar á nákvæmlega sama stað. Það kom í ljós að þeir höfðu ekki hugmynd um hvaða áhrif þetta hefði á bankana, þá sérstaklega ríkisbankann sem almenningur ber ábyrgð á, skattgreiðendur. Þeir höfðu ekki hugmynd um það.

Og hver er niðurstaðan? Jú, þetta hefur gríðarleg áhrif á þann banka. Það að þeir skyldu ekki hafa kannað það segir okkur allt um vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar í þessu máli sem varðar alla og varðar almannahagsmuni.

Virðulegi forseti. Það eru oft deilur um sjávarútvegsmál. Það hafa alltaf verið deilur um sjávarútvegsmál í íslenskri pólitík. Ég var að lesa hið merka rit Stefni frá 1959 sem er gefið út af Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Þar er farið mjög ítarlega yfir stöðuna í sjávarútvegsmálum á þeim tíma. Stefna Sjálfstæðisflokksins er að hætta þessum sjávarútvegsstyrkjum, það sé engin skynsemi í því að stilla gengið af þannig að það sé alltaf tap á útveginum og síðan séu skattgreiðendur látnir dæla peningum í útgerðarfyrirtækin eftir „behag“ þannig að stjórnmálamenn ráði því hvaða fyrirtæki lifa og hver deyja. Ég veit að sjálfstæðismenn höfðu alveg rétt fyrir sér hvað þetta varðar á þessum tíma. Einhver kynni að segja: Þetta var 1959. Þetta er samt raunveruleikinn í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við, ekki hringl með gengið en svo sannarlega sjáum við skattgreiðslur fara í sjávarútveginn í flestum löndum.

Við fórum þá leið í fullkominni neyð að taka upp aflamarkskerfið. Það var búið að reyna ýmislegt annað og mikill aflasamdráttur varð og svo var hér yfirgnæfandi meiri hluti þingmanna sem samþykkti að fara í aflamarkskerfið. Síðan samþykkti vinstri stjórn, sem bæði hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sátu í, frjálst framsal með þeim rökum að það væri afskaplega skynsamlegt.

Það sem hefur gerst, virðulegi forseti, er að hér var komið á hagræðingu innan greinarinnar án þess að menn hafi notað til þess skattgreiðslur. Það hefur ekki verið gert þannig heldur hefur það gerst innan greinarinnar. Það hefur verið gagnrýnt að þegar aflamarkinu var fyrst úthlutað, sem var bara að hluta til, var það gert með hliðsjón af þriggja ára veiðireynslu. Margir telja að það hafi ekki verið réttlátt og að þar hafi menn fengið of mikið fyrir lítið. Það má vel vera. Maður ber ábyrgð á ýmsu en ég var í Grunnskóla Borgarness á þessum tíma og get þess vegna því miður ekki svarað fyrir það af hverju menn fóru nákvæmlega þá leið en ekki einhverja aðra. Þannig er það með mjög marga þingmenn sem nú sitja á þingi. Þeir voru í grunnskóla á þessum tíma. Ég horfi á tvo, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson og hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, og veit að þau voru í ágætisgrunnskólum úti á landsbyggðinni alveg eins og ég þótt það hafi ekki verið sami skólinn.

Hér er hins vegar ekkert tekið á þessu. Ef þetta var óréttlæti er samt ekki verið að taka á því í þessu frumvarpi. Þegar menn hafa farið í einhverjar aðgerðir til að nálgast það mál hefur það í reyndinni verið gert þannig að aflamark hefur verið tekið af þeim sem hafa greitt fyrir það. Þeir aðilar sem jafnvel hafa selt sig út úr greininni fengu það með litlum eða engum tilkostnaði. Þannig er það í rauninni. Ég sé ekki réttlætið í því. Ég get alveg séð að það sé réttlátt að einhver einstaklingur sem hefur unnið alla sína tíð við sjávarútveg vilji losa sig út úr útgerðinni og fá einhverja fjármuni fyrir það en mér finnst ekki réttlátt að sá sem hefur keypt þann kvóta sé skertur til þess að hinn komist aftur inn ókeypis. Það er ekki réttlæti í því en það er það sem menn ætla að gera hjá hæstv. ríkisstjórn með þessu fyrirkomulagi. Hugmyndin er að hleypa þeim inn sem eru búnir að selja aflamarkið og eru búnir að taka inn hagnaðinn svo þeir geti byrjað aftur. Þannig er það, virðulegi forseti, og ég spyr: Er það réttlátt? Mitt svar er: Nei, það er ekki réttlátt.

Aflamarkskerfið og það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum hefur augljósa kosti og þess vegna koma menn fram og segja: Heyrðu, það er svo gríðarlega mikill hagnaður. Að vísu eru menn hugsanlega að taka bestu árin í sögu sjávarútvegsins og segja: Hér er svo mikill hagnaður, við þurfum að ná í hann fyrir ríkissjóð. Þetta er velmegunarvandamál. Það er það sem menn eru að ræða um og það þýðir að kerfið sem slíkt hefur skilað hagnaði fyrir alla. Það er vel.

Það eru gallar á mannanna verkum og það eru gallar á þessu kerfi. Mér fyndist eðlilegt að við ræddum hluti sem ég veit að brenna á ýmsum sjómönnum og öðrum sem til þekkja, t.d. að það er munur á fiskverði eftir því hvort fiskurinn fer á markað eða er reiknaður út eftir hefðbundnum leiðum, getum við sagt. Ef allur fiskur færi á markað yrðu skattgreiðslur örugglega hærri. Sannarlega yrðu laun sjómanna hærri og þótt verð mundi kannski jafna sig eitthvað eftir því sem á liði er margt sem bendir til þess að það væri gagnsærra og skynsamlegra kerfi. Gallinn við það kerfi sem hefur verið bent á er að eitt af því sem skapar verðmæti í því er það að þegar menn gera samninga, þ.e. ef þeir sem eru í útgerð eða fiskvinnslu selja vöru inn á markað, geta þeir tryggt afhendingaröryggi. Það að geta tryggt afhendingaröryggið þýðir að viðkomandi aðili, og þar af leiðandi íslenskt þjóðarbú, fær hærra verð. Menn benda á að með því að setja allan fisk á markað kynni þessu að vera ógnað. Þetta er nokkuð sem þarf að fara yfir. En erum við að ræða það í þessu frumvarpi? Nei, ekki nokkurn skapaðan hlut.

Sömuleiðis benda ýmsir á að það sé misfarið og það sé mikil hætta á allrahanda undanskotum í tengslum við vigtunarmálin. Erum við að ræða það hér? Nei, það er ekki verið að ræða neina slíka hluti. Hér erum við að ræða fyrst og fremst frumvarp sem hefur einkenni þess að menn fara fram með einhverjum slagorðum, slá einhverjar pólitískar keilur, reyna að bjarga sér fyrir kosningar og eru tilbúnir að fórna þjóðarhag til að ná skammtímaávinningi fyrir pólitíska flokka sem eru nú þegar búnir að valda nógu miklum skaða á íslensku samfélagi. Þetta er nákvæmlega það sama og menn sáu áður, Alþýðubandalagið sáluga sem einhver sagði að hefði dáið úr leiðindum, ég held að það sé rétt, var ekki að ástæðulausu kallað Alblíðubandalagið vegna þess að það lofaði öllu sem mönnum datt í hug. Það sama er hér upp á teningnum. Hér segja menn: Heyrðu, ef við bara náum fjármunum af þessum fámenna hópi sægreifa mun öllum öðrum líða betur.

Þegar ég var ungur drengur bar ég út blað sem hét Þjóðviljinn og ég las það líka. Það er einkenni mjög vinstri sinnaðra stjórnmálaafla að þau reyna að finna einhverja fámenna hópa sem fáir tengja sig við, gera grýlur úr þeim, skapa öfund í garð þessara hópa og segja sem svo: Ef við bara náum peningum af þessum vondu aðilum verður allt miklu betra. Þetta voru ekki alltaf sægreifar. Þetta var heildsöluklíkan, fjölskyldurnar 14, stórbændur og fjármagnseigendur. Ég man ekki alla þá hópa sem menn eru búnir að tilgreina. Ef við skoðum umræðuna núna gengur hún nákvæmlega út á þetta, það að menn færa engin rök fyrir því að þjóðin muni hagnast á þessu, nei, nei, það á bara að ná í þessa vondu kalla þarna, hirða peningana af þeim og þá verður allt miklu betra.

En það verður ekki allt miklu betra. Sá sem skaðast á því að þetta frumvarp fari í gegn er íslenska þjóðin.

Þetta frumvarp gengur út á ofurskatta. Það er annars vegar fastur skattur sem mun leggjast á útgerðina alveg sama hvernig gengur. Eins og við vitum eru miklar sveiflur í sjávarútvegi. Síðan eru menn með veltuskatt. Dæmi um veltuskatt er aðstöðugjaldið sem við tókum sem betur fer af á sínum tíma. Aðstöðugjaldið er skattur sem var settur til dæmis á veltu hjá verslunum. Það gerði það að verkum að lágvöruverslun átti mjög erfitt uppdráttar vegna þess að það var svo lítil álagning þar. En hér eru menn aftur að taka upp slíkan skatt, þó þannig að það er ekkert greitt af fyrstu 30 tonnunum. Það er bara helmingurinn af gjaldinu frá 30 til 70 en upp frá 70 tonnunum er fullur skattur. Það mun að öllu óbreyttu ýta undir mjög óhagkvæma útgerð og samkvæmt breytingartillögum er skatturinn lagður á lögaðila þannig að væntanlega munum við sjá marga báta veiða í kringum 30 tonnin eða rúmlega það.

Það er augljóst að gjaldið getur verið hærra en hagnaður viðkomandi fyrirtækja. Við munum líka sjá, eins og bent hefur verið á, og þá koma einmitt þessi veltuskattsáhrif, að það verður ekki hagkvæmt að veiða ódýrar tegundir, þær sem hafa ekki hátt markaðsvirði. Einhver kynni að segja: Er það ekki allt í lagi? Nei, það er ekki allt í lagi. Það sem okkur hefur tekist með þessu fiskveiðistjórnarkerfi er að þrátt fyrir að aflinn hafi oft minnkað hefur verðmætið ekki minnkað. Jafnvel eru þess dæmi að við erum með minni afla en meiri verðmæti.

Hér erum við að búa til „mekanisma“ sem mun vinna algerlega gegn þessum markmiðum og það er svolítið sérstakt á sama tíma og aðrar þjóðir og ríkjabandalög, eins og Evrópusambandið, líta til okkar og segja: Hér hafa menn augljóslega náð miklum árangri, þ.e. á Íslandi, og við viljum gera eins. Þá ætla menn að fara í þveröfuga átt, menn ætla að fara að gera sömu mistökin aftur.

Ragnar Árnason prófessor telur að skatthlutfallið verði 76% af hagnaði. Hvar á byggðu bóli, hvar í þeim löndum sem við berum okkur saman við, í hvaða atvinnugrein er 76% skattur af hagnaði? Mér vitanlega erum við eina þjóðin sem lætur sjávarútveginn greiða auðlindagjald. Almenna reglan er sú að skattgreiðendur greiða með sjávarútveginum. Um það er ágætissátt en það að ganga svona fram mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðina, almenning. Það kemur niður á almenningi ef við veikjum samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs. Íslenskur sjávarútvegur er í bullandi samkeppni við sjávarútveg annarra ríkja sem alla jafna er niðurgreiddur af skattfé. Það er staðreynd málsins. Hann er sömuleiðis í mikilli samkeppni, virðulegi forseti, við aðra próteinframleiðslu, aðra fiskframleiðslu. Það er ekki þannig að menn komi út í búð og hugsi bara um það að kaupa eina fisktegund og að ein fisktegund sé ekki í samkeppni við aðra. Við erum að sjá mjög stórtæka framleiðslu á eldisfiski í Noregi, Síle og ýmsum öðrum löndum. Sú þróun er ekki að minnka, þvert á móti verður meira um það. Okkur hefur að vísu ekki tekist að fara í fiskeldi í laxi, og margir segja blessunarlega, þ.e. ekki gengið vel. Það hefur hins vegar gengið mjög vel í bleikju og við höfum reynt fyrir okkur með þokkalegum árangri í þorskeldi þótt það sé langt í land. Svo er ýmislegt annað sem ég er enginn sérfræðingur í.

Hverjir hafa unnið að þessu? Jú, það eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Erum við ekki sammála um að við viljum sjá slíka framleiðslu? Erum við kannski á móti nýsköpun á þessu sviði? Viljum við ekki sjá fjárfestingar á þessu sviði? Viljum við ekki sjá íslensk fyrirtæki framleiða hágæðamatvæli fyrir erlendan markað? Viljum við ekki nýta þau tækifæri sem við höfum á þessu sviði? Oft grípa hv. þingmenn stjórnarliðsins fram í fyrir manni en það er samt ekki mikið núna. Ég mundi þiggja að heyra frá þeim já eða nei. (Gripið fram í: Já eða nei.) Ef ég vissi ekki betur hefði ég haldið að gamall framsóknarmaður hefði kallað fram í, hann sagði já og nei, en svo er ekki. (Gripið fram í.) Ég vildi heyra já eða nei. (Gripið fram í.) Ég skil núna af hverju þetta frumvarp er eins og það er, ég skil það núna. Það eru nærtækari skýringar en við höfum áttað okkur á.

Virðulegi forseti. Ég ætla það, þrátt fyrir þögn stjórnarliða, að það sé sátt um að við sjáum nýsköpun á þessu sviði. Ekki fara sjávarútvegsfyrirtækin í það eftir þessa skattlagningu, það sér hver maður. Hverjir eiga þá að fara í nýsköpunina? Ekki er þetta á höfuðborgarsvæðinu, þetta er á landsbyggðinni. Virðulegur forseti ætti að þekkja þetta betur en margir aðrir. Hverjir fara þá í hana? Ætla menn að setja hér opinbera sjóði? (Gripið fram í.) Já, væntanlega er engin önnur leið. Hér ætla menn að fara í ríkisrekstur á því sviði með einum eða öðrum hætti því að með þessum frumvörpum á að taka burtu alla getu einkaaðila til að standa í slíku. Við sjáum hér þess vegna andlit Alþýðubandalagsins birtast skýrt, og allt það fólk sem hélt að menn meintu eitthvað með öllum gífuryrðunum og loforðunum um nútímalegan jafnaðarmannaflokk verður að horfast í augu við að þetta er bara gamaldags Alþýðubandalag. Við erum að tala um tvo vinstri sinnaða sósíalistaflokka, hvorki meira né minna. (Gripið fram í: Þetta er orðið antík.) Já, það væri kannski hægt að græða á því ef þetta væri orðið antík en við græðum ekkert á þessum flokkum, íslenska þjóðin græðir ekkert á þessum flokkum. Íslenska þjóðin tapar bara á þessari antík og þessum gamaldags sósíalistaflokkum. Það er bara þannig. Hagvöxturinn í þessu landi kemur fyrst og fremst vegna þess að hér — og það er kannski ágæt umræða um eignaraðildina á fiskinum því að hann hefur ekkert verið spurður hver eigi hann en ef hann mundi svara held ég að hann segði að enginn ætti sig. Þess vegna tók meira að segja ESB-makríllinn sig til og synti til Íslands. Hann fékk ekki leyfi frá Brussel, hann bara kom hingað. Honum var nákvæmlega sama þótt hann heyrði undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB, hann bara fór til Íslands. (ÓN: Hann flúði ESB.) Já, hv. þm. Ólöf Nordal bendir á að hann hafi flúið ESB. Ég held að það sé mikið til í því enda er þar ein versta sjávarútvegsstefna á byggðu bóli. ESB lítur líka til Íslands, þ.e. ekki þessa frumvarps heldur þess kerfis sem hefur verið til staðar og hugsar að það gæti farið þá leið. En makríllinn gerði ekkert með umræðu um eignarhald á fiski og synti til Íslands. (Gripið fram í: Ætlar þú að stjórna …?)

Það er ekkert sjálfgefið að hægt sé að ná verðmætum úr makríl. Það þarf að veiða þennan fisk sem er mættur inn í íslenska lögsögu í fullkomnu óleyfi ESB. Ef menn ætla að fara ofurskattaleiðina, draga allan mátt úr sjávarútveginum eins og hér á að gera, hver á þá að veiða þegar næsta fisktegund mætir sem ég veit ekkert hver verður vegna þess að ég á ekki fiskinn í hafinu frekar en nokkur annar og hann bara tekur upp á því að gera það sem honum dettur í hug? Hver á að fara í það næst þegar slíkt tækifæri gefst? Væntanlega ríkisútgerðin, er það ekki? Þá er draumurinn alveg fullkomnaður hjá Alþýðubandalagsflokkunum því að ekki verða það fyrirtækin. Eftir að menn hafa keyrt þetta skattamál í gegn og tekið líka fiskveiðistjórnarkerfið sem menn segja núna að hagnist allt of mikið og þess vegna þurfi að skattleggja það svo mikið, þegar menn eru búnir að taka þá þætti sem ollu því að hann varð hagkvæmur, ná menn heldur ekki miklum sköttum út úr atvinnugreininni. Við sjáum bara þá að af völdum þessarar stjórnar verður afskaplega lítið eftir af íslenskum sjávarútvegi. Þetta er stóra myndin, virðulegi forseti. Hv. stjórnarliðar geta rætt og rifist um einhver smámál í tengslum við þetta en þetta er stóra myndin.

Ég vek athygli á því líka að það að veikja íslenskan sjávarútveg er ekki bara slæmt af því að við viljum fá útflutningstekjur. Það er slæmt að hann beri skarðan hlut í mjög harðri samkeppni, mjög harðri niðurgreiddri starfsemi af skattfé almennings í öðrum löndum, en ekki bara það, við sjáum líka að hann á þá erfitt með að keppa um mannafl á íslenskum markaði. Ef einhver heldur að hér hafi alltaf verið langar raðir af fólki sem vill vinna hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum er það fullkominn misskilningur. Það er ekkert rosalega langt síðan, að ég held, að nokkurn veginn allir háskólanemar ætluðu að vinna í Kaupþingi. Það er að vísu hætt en þegar við skoðum skoðanakannanir meðal háskólanema, svo við tökum dæmi, er það því miður ekki þannig að menn ætli fyrst og fremst að vinna hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum. Það er alveg sama hvað menn segja og alveg sama hvaða greinar um er að ræða — ég veit að þetta kemur hv. stjórnarliðum fullkomlega á óvart því að afskaplega fáir þeirra hafa staðið í rekstri og enn þá færri hafa áhuga á rekstri — ef hún er yfirskattlögð og blóðmjólkuð mun það hafa áhrif á allt, þar með talið launakjör þeirra sem þar vinna. Menn nota ekki sömu fjármunina bæði í laun og skatta, ekki bæði í fjárfestingar og skatta, ekki bæði í nýsköpun eða markaðssetningu og skatta. Það er bara ekki þannig.

Það er sérstaklega áhugavert að sjá að hv. stjórnarliðar sem koma úr hinum dreifðu byggðum berjast hvað harðast fyrir þessu máli. Þrátt fyrir að menn hjá stjórnarflokkunum séu búnir að véla um þetta frumvarp í bakherbergjum í nokkur ár er það ótrúlega illa unnið og menn hafa augljóslega ekki nennt þessu eða ég veit ekki hvað hefur gert það að verkum að menn hafa ekki skoðað áhrifin á heimilin í landinu, bankana og annað. Menn eru komnir á þann stað að vera búnir að átta sig á því að þetta kemur illa niður á hinum dreifðu byggðum. Hvað ætla menn að gera í því? Jú, taka þessa peninga af landsbyggðinni, frá góðum sjávarútvegsstöðum eins og Siglufirði, Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn, sem eru allt staðir sem við þekkjum vel, og dreifa þeim einhvern veginn til baka með milligöngu hjá ríkisvaldinu sem hefur aðsetur í okkar fallegu og góðu höfuðborg.

Það er sérkennilegt að þeir sem ganga harðast fram í þessu séu hv. stjórnarliðar af landsbyggðinni. En þeir um það. Stærsta verstöð landsins er að vísu í Reykjavík en við vitum að hlutfallslega skiptir það miklu minna en gengur og gerist á þeim stöðum sem ég nefndi. Þótt ég sé þingmaður Reykvíkinga fagna ég því ekki að við skattleggjum útgerðina í landinu eins og hér stendur til vegna þess að við Reykvíkingar munum ekki hagnast á því. Við munum ekki hagnast á því að veikja íslenska efnahagskerfið. Það mun gera íslenskt efnahagskerfi veikara og allir landsmenn tapa á því. Þrátt fyrir að við séum sem betur fer komin með fleiri egg í körfuna, áliðnaðinn, mjög öfluga ferðaþjónustu og hátækniiðnað svo eitthvað sé nefnt, er þetta ein af undirstöðuatvinnugreinunun. Það er fræg saga af forsætisráðherra þjóðarinnar, Ólafi Thors, sem hringdi á hverjum degi til Siglufjarðar til að kanna stöðuna á íslenska þjóðarbúinu. Nú er orðin breyting á því sem betur fer en enn þá er þetta sá grunnur sem við byggjum á og ef menn halda að við séum komin á einhverja endastöð og að það sé ekkert nýtt í þessu er það fullkominn misskilningur. Við verðum að vera með nýsköpun á þessu sviði og þau fyrirtæki sem hafa þjónustað íslenskan sjávarútveg hafa, þrátt fyrir að ýmis útrás hafi farið flatt, sýnt glæsileg merki um íslenskt einkaframtak sem byggt er á sjávarútvegi. Marel er kannski það stærsta einstaka en það má taka ýmislegt fleira . Þessi fyrirtæki hafa fyrst og fremst sprottið upp af framtaki einstaklinganna og orðið svona öflug vegna þess að hér hefur verið öflugur sjávarútvegur sem þau hafa getað þjónustað á heimamarkaði og síðan hafa þau fært út kvíarnar til annarra landa. Ef við ætlum að taka þetta hjarta í efnahagskerfinu, sem sjávarútvegurinn er, kreista það og reyna að ná úr því öllu sem við getum verður það ekki til að spýta blóði í atvinnugreinar og þjónustu eins og þá þjónustu sem hefur verið við sjávarútveginn. Eitt er Marel, önnur eru hátæknifyrirtæki sem byrjuðu að þjónusta íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og eru núna úti um allan heim.

Virðulegi forseti. Við komum í veg fyrir síðasta sjávarútvegsfrumvarp sem hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar gáfu þá einkunn að væri bílslys. (Gripið fram í.) Það er afskaplega mikilvægt fyrir íslenska þjóð að við komum í veg fyrir þetta slys sem hefur ekki enn þá fengið jafnskemmtilegt nafn og hæstv. utanríkisráðherra gaf síðasta slysi. Ég vonast til þess (Forseti hringir.) að við munum klára það verkefni því að íslensk þjóð á það skilið.