140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega umburðarlyndur maður og ætla að fyrirgefa hv. þm. Magnúsi M. Norðdahl að hafa ekki hlustað á ræðuna mína og ég ætla líka að fyrirgefa hv. þm. Magnúsi M. Norðdahl að hafa ekki heldur hlustað á andsvörin. En ef hv. þingmaður hefði hlustað á annað hvort, þá hefði hann vitað svarið við þessu, en ég get endurtekið það. Ég vitnaði beint í Ragnar Árnason prófessor sem gaf umsögn um málið. Hann taldi að þetta gæti numið allt að því 72% hagnaði en stóra einstaka málið er að þetta er ekki skattur á hagnað. Þetta er fast gjald og síðan er þetta svona stighækkandi tekjuskattur, veltuskattur sem leggst á allt yfir 30 tonna veiði og er svipað og aðstöðugjaldið var í gamla daga þannig að það er mjög misjafnt hvernig þetta leggst á. Í sumum tilfellum, sérstaklega þegar um er að ræða tegundir sem eru verðlitlar, þá er reikningsdæmið einfalt. Það borgar sig ekki standa í því.