140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Starfsáætlun þingsins er nú úr gildi fallin og við vinnum á Alþingi nánast klukkutíma fyrir klukkutíma. Við erum til dæmis nýbúin að heyra af því að til standi að halda fund á morgun og hefja hann kl. 10.30. Það er auðvitað ekki hægt að hafa það þannig hér kvöld eftir kvöld og dag eftir dag að þingmenn hafi ekki hugmynd um hvenær þingi ljúki, hvort það verði á skikkanlegum tíma á daginn eða standi inn í nóttina. Reglan hefur nánast verið sú, raunar allt of mikið á þessu kjörtímabili, að hér eru haldnir kvöldfundir kvöld eftir kvöld eftir kvöld, helgi eftir helgi.

Ég verð að fara fram á það við virðulegan forseta að hann gefi nokkuð ákveðnara svar en það sem hann gaf hér áðan. Hvað þýðir það að halda hér eitthvað áfram? Þýðir það að fundir standi fram að miðnætti eða fram yfir miðnætti? Ekki trúi ég því að hæstv. forseti sé að velta því fyrir sér í alvöru að fara eitthvað fram yfir miðnætti með þennan fund þegar fyrir liggur að þingið hefur aftur störf hér kl. 10.30 í fyrramálið.