140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti lýsti því yfir áðan að hann hefði hlustað á ábendingar þeirra þingmanna sem hafa tekið til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta. Hæstv. forseti virðist hins vegar ekki hafa hlustað á það sem ég reyndi að benda hæstv. forseta á sem er mikilvægi þess að umræðan skili árangri, að hér eigi sér stað rökræða.

Hæstv. forseti fór aftur að segja hv. þingmönnum hversu margir væru á mælendaskrá og hafði það eftir mér. Það eru vissulega margir á mælendaskrá en til hvers á að láta menn tala hér fram á nótt án þess að stjórnarliðar hafi fyrir því að fylgjast með og taka þátt í umræðunni til þess eins að þurfa síðan að endurtaka ræðurnar á morgun og eftir helgi þangað til einhver stjórnarliði verður á staðnum til að meðtaka upplýsingarnar? Það væri ábyrgðarleysi af stjórnarandstöðunni að gera ekki hvað hún getur til að koma til skila þeim fjölmörgu alvarlegu viðvörunum sem borist hafa vegna þessara frumvarpa.