140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þótt ég hafi engan veginn verið sammála þeim pólitísku skoðunum sem ýmsir þingmenn settu fram á árum áður má segja að ég hafi engu að síður dáðst að elju og vinnu hv. þáverandi þingmanns Steingríms J. Sigfússonar þegar hann var stjórnarandstæðingur. Í rauninni hefur allt of lítið breyst á þinginu síðan þá og það má alveg gagnrýna þáverandi meiri hluta sem stýrði þinginu. Ég var hluti af honum og get sagt að allt of lítið hefur breyst síðan þá þrátt fyrir að við höfum í millitíðinni fengið mjög gagnmerka rannsóknarskýrslu og líka álit frá þingmannanefnd Alþingis. Þess vegna finnst mér sárt að sjá að allt of lítið er farið eftir þeim ábendingum sem þar komu fram. Þess vegna hvet ég forustumenn stjórnarflokkanna, af því að við vitum vel að það eru þeir sem stjórna (Forseti hringir.) því hér hvernig þessu vindur fram, til að reyna að komast að einhverri niðurstöðu, ná sátt, gera hlé á þingfundi þannig að menn geti byrjað að tala saman. Ég er enn sannfærðari eftir daginn í dag og umræðuna hér að í þessu mikilvæga og erfiða máli geta stjórnmálaflokkarnir náð saman.