140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti verður að gefa mér smástund til að raða pappírum vegna þess að ég hyggst ræða þetta mál út frá fyrirliggjandi staðreyndum og mun í einhverjum tilvikum þurfa að vísa í ritaðan texta.

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að fjalla aðeins um mál sem kom til umræðu í andsvörum tveggja hv. þingmanna við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson þar sem rætt var um skatthlutföll. Ég er með umsögn Ragnars Árnasonar, prófessors í fiskihagfræði, um frumvarp til laga um veiðigjöld. Þar segir í 3. kafla sem ber yfirskriftina skatthlutfallið, með leyfi forseta:

„Skatthlutfallið samkvæmt frumvarpinu er mjög hátt. Sértæka gjaldið er 70% af metnum hagnaði. Að viðbættu tekjuskattshlutfalli yrði breytilega skatthlutfallið 76% …“

Virðulegur forseti. Það var þó síst ofmælt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni þegar hann talaði um 70% skatt. Prófessorinn heldur áfram, með leyfi forseta:

„Erfitt er að finna nokkra skattlagningu á fyrirtæki á Vesturlöndum, hvort sem þau eru í auðlindavinnslu eða ekki, sem búa við skattheimtu sem er í námunda við þetta hlutfall af hagnaði.“

Það er sem sagt erfitt að finna dæmi um það, virðulegur forseti, nokkurs staðar á Vesturlöndum að fyrirtæki búi við slíkt skatthlutfall og þá er olíuiðnaður Noregs meðtalinn.

Einnig ætla ég vegna þeirra umræðna sem urðu um ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að vitna aðeins í greinargerð þeirra Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar. Þar segir í kafla um veiðigjöld, með leyfi forseta:

„Alvarlegir gallar eru hins vegar á mati auðlindarentu til grundvallar sérstöku veiðigjaldi. Alvarlegasti gallinn hefur með uppfærslu gagna að gera. Álagning sérstaks veiðigjalds byggir á tæplega tveggja ára gömlum rekstrargögnum sem þarf að uppfæra.“ — Nú ætla ég að biðja hæstv. forseta að hlusta sérstaklega vel: „Mat höfunda er að aðferð frumvarpsins hefði skipulega ofmetið rentu svo nemur tugum prósentna hefði henni verið beitt á undanförnum árum. Sem dæmi hefði sérstakt veiðigjald verið 140% af metinni auðlindarentu ef aðferð frumvarpsins um uppfærslu gagna hefði verið beitt á tímabilinu 2006 til 2010. Augljóst er að ekki verður búið við svo umfangsmikla skekkju.“

Virðulegi forseti. Hvar er hv. þm. Magnús M. Norðdahl nú og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sem gerðu miklar athugasemdir við ábendingar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar? Það hefði verið gott að hv. þingmenn fylgdust með umræðunni og tækju helst þátt í henni til að okkur miðaði eitthvað áfram, virðulegi forseti, þegar verið er að benda á staðreyndir, staðreyndir sem liggja fyrir og virðast ekki enn hafa komist til skila til hv. stjórnarliða.

Ég ræddi töluvert í síðustu ræðu minni um framlegð og hv. stjórnarliðar virtust margir hverjir ekki skilja hvað það orð merkir. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson taldi framlegð í íslenskum sjávarútvegi alveg gríðarlega mikla, svo mikla að vel mætti skattleggja greinina enn meira en ríkisstjórnin áformar, og sagði að aðra eins framlegð væri helst að finna í bandarískum gosdrykkjaiðnaði. Vegna þessara orða hv. þingmanns reyndi ég að útskýra fyrir hv. stjórnarliðum hugtakið framlegð með vísan í gosdrykkjaiðnaðinn. Nú verð ég líklega, virðulegi forseti, að endurtaka þessa skýringu vegna þess að ég hef séð af viðtölum við hæstv. forsætisráðherra að þessar skýringar hafa ekki komist til skila til hæstv. ráðherra.

Ég vil nota tækifærið og biðja virðulegan forseta að kanna hvort hæstv. forsætisráðherra hyggist ekki fylgjast með umræðunni og taka þátt í henni.

Framlegð er tekjur að frádregnum breytilegum gjöldum. Það er ekki mikið flóknara en svo. Ef við notum dæmið um bandaríska gosdrykkjaiðnaðinn getum við gefið okkur, til að hafa einhverja viðmiðun, að það kosti 30 kr. að framleiða hverja viðbótargosdós. Þegar búið er að byggja verksmiðjuna og kaupa öll tækin — í flestum tilvikum er það eflaust gert fyrir lánsfé og það þarf að borga vexti af því — þarf að ráða fólk í vinnu við að starfa við vélarnar og þrífa og halda utan um reksturinn, það þarf að kaupa flutningabíla til að keyra gosið vítt og breitt í verslanir og ráðamenn til að keyra þessa bíla en hugsanlega kostar svo bara 30 kr. að framleiða hverja viðbótardós.

Hver er raunverulegur kostnaður við hverja dós? Hann gæti vel verið 70 kr.

Ef dósin er seld á 100 kr., og við lítum fram hjá skatti í þessu tilviki, hver er þá framlegðin? Hún er reyndar 70 kr., 100 mínus 30.

Þá mætti samkvæmt röksemdafærslu hv. stjórnarliða ætla að þarna væri 70 kr. svigrúm af hverri dós ef bandarísk stjórnvöld kysu að taka upp sérstakt gosgjald sem legðist á hverja gosdós og væri þá kannski 50–70% af framlegðinni. Ef bandaríska gosgjaldið væri 50% af framlegðinni, 70 kr., yrði það 35 kr.

Hver væri hins vegar raunverulegur hagnaður af sölu fyrirtækjanna af sölu gosdósanna? 30 kr. í breytilegan kostnað og 40 kr. í fastan kostnað sem eru 70 kr. samtals, gosdósin er seld á 100 kall, þá eru 30 kr. afgangs. En fyrirtækið þarf að borga 35 kr. í sérstakan gosskatt og væri þar af leiðandi rekið með tapi.

Þetta litla dæmi, virðulegi forseti, er nú endurtekið til að útskýra fyrir stjórnarliðum að allar þessar upphrópanir um hina gríðarlegu framlegð í íslenskum sjávarútvegi duga ekki til að byggja frumvarp á nema menn geri sér grein fyrir hvað framlegð þýðir. Framlegð er ekki hreinn hagnaður fyrirtækja. Það er kannski misskilningur eða vanþekking sem veldur því að stjórnarliðar leggja fram frumvarp sem fær þá umsögn frá sérfræðingum að það muni meira og minna leggja sjávarútveginn í rúst, gera íslenskan sjávarútveg gjaldþrota.

Hvers vegna leggur ríkisstjórn fram slíkt frumvarp? Það hlýtur að vera á misskilningi byggt. Menn hafa einfaldlega ekki unnið hlutina nógu vel, enda var ekki haft fyrir því að hafa neitt samráð um þetta mál eða leitað í tæka tíð til þeirra sérfræðinga sem hefðu getað leiðbeint ríkisstjórninni. Þess vegna sitjum við uppi með þetta stórhættulega mál og erum að reyna að gera á því lagfæringar sem væri kannski líklegra til árangurs ef stjórnarliðar tækju þátt í umræðunni hér, rökræddu þetta mál og gerðu á því þær endurbætur sem hæstv. utanríkisráðherra sagði að væru nauðsynlegar og þyrfti að ræða í þingsal. Í staðinn fara menn í spunaleiki og eru með upphrópanir um að þeir sem gagnrýni þessi frumvörp séu handbendi illra afla nánast og þeir sem leyfi sér að koma hingað og mótmæla séu það líka þótt mörg hundruð sjómenn hafi mætt á Austurvöll til að mótmæla þessum frumvörpum. Búnar eru til ótrúlegar sögur um þá og því haldið fram að þeir hafi verið þvingaðir til að mæta og mótmæla. Það er með ólíkindum að hv. þingmenn stjórnarliðsins skuli leyfa sér að tala á þennan hátt um sjómannastéttina. Því var þar að auki haldið fram að fólk sem mætti til að mótmæla útgerðinni, LÍÚ, og frumvörpum ríkisstjórnarinnar hefði verið að styðja frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Nú er tími minn víst liðinn, virðulegi forseti. Ég þarf að biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá vegna þess að ég er rétt að byrja á þessari yfirferð. (Forseti hringir.) Þetta gengi vissulega miklu hraðar og betur, virðulegi forseti, ef maður þyrfti ekki að endurtaka sig, ef maður hefði það á tilfinningunni að stjórnarliðar fylgdust með og lærðu eitthvað af umræðunni.