140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir prýðilega ræðu þó ég viðurkenni að ég hafi heyrt hluta af henni áður. Ég tek undir með hv. þingmanni að það hefði verið betra ef stjórnarliðar hefðu verið hér og hlustað á þessa einföldu kennslubókarskýringu á því hvers konar óskapnað við erum í rauninni að tala um. Ég tala um óskapnað af því að ég tel þetta vera vonda nálgun á máli sem hægt er að ná sátt um.

Þá er ég kannski komin að þeirri spurningu sem mig langar að varpa fram. Ég hef tekið eftir því og fylgst með ræðum hv. þingmanna Framsóknarflokksins. Þeir hafa m.a. svarað fyrirspurnum um það hversu hátt auðlindagjaldið eða veiðiskatturinn eigi að vera og þeir hafa sagt um 10–11 milljarðar. Hér erum við að ræða um 15 upp í 25 milljarða í frumvarpi stjórnarflokkanna. Telur hv. þingmaður að það sé mögulegt af hálfu allra stjórnmálaflokka að ná niðurstöðu sem verði ekki íþyngjandi fyrir sjávarútvegsfyrirtækin til skemmri og lengri tíma þannig að þjóðin verði bærilega sátt og við getum haldið áfram og horft fram á við og tekið önnur mál fyrir í þinginu?

Sjálf er ég tiltölulega bjartsýn á að þetta takist, en um leið segi ég: Meðan þessi þingfundur er með þennan ágæta hæstv. forseta, með sjávarútvegsráðherra meðal annarra á sveimi og lykilaðila eins og hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson hér í salnum þá setjast menn ekki niður og ræða málin. Það finnst mér miður en ég ítreka að ég held að það sé engu að síður hægt að ná góðri lendingu í þessu máli. Er hv. þingmaður sammála mér í því efni?