140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst hvað varðar hóflegt veiðigjald þá fer það að sjálfsögðu eftir aðstæðum hverju sinni. Það er einn af mörgum göllum við þetta frumvarp að það er ekki hugað nógu vel að ólíkum aðstæðum. Besta leiðin er að skattleggja einfaldlega hagnað fyrirtækja í sjávarútvegi, beita tekjuskattskerfinu eða sambærilegu fyrirkomulagi. Þannig er ekki hætta á því að verið sé að setja fyrirtæki í þrot sem ganga í gegnum erfið tímabil en þau sem vel gengur hjá og skila hagnaði greiða þá þeim mun meira til samfélagsins.

Hvað varðar samstöðu um málið held ég að það sé alveg ljóst af þeirri vinnu sem fór fram í til að mynda sáttanefndinni svokölluðu að vel sé hægt að ná sátt um þetta mál milli flokkanna á Alþingi, ég skal ekki segja með Hreyfinguna sem er svolítið sér á parti hvað varðar kenningar í sjávarútvegsmálum eins og öðru. Samstaða um málið held ég því að sé vel möguleg. Við höfum líka dæmin til að sýna það.

Hvers vegna er málið þá í þessum hnút? Í fyrsta lagi var horfið frá þeirri vinnu sem samráðsnefndin hafði náð prýðilegum árangri í. Málið var aftur sett í átakafarveg. Ég tel að það hafi verið viljandi gert vegna þess að hluti stjórnarliðsins telur að þetta mál henti sem pólitískt baráttumál og þess vegna hafi það einfaldlega ekki hentað þeim að ná sátt í málinu.

Í öðru lagi var málið unnið án þess að þeir sérfræðingar sem best þekkja til væru kallaðir til ráðgjafar á fyrri stigum. Þess vegna er málið fullt af alvarlegum göllum eins og sést á þeim (Forseti hringir.) fjölmörgu ábendingum sem borist hafa þinginu.