140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er dálítið hræddur um að ástæðan fyrir því að stjórnarliðar veigri sér við að taka þátt í þessari umræðu sé einmitt sú hversu illa málið var undirbúið. Það er auðvitað vandræðalegt að þurfa að svara fyrir þessi frumvörp eftir allar þær umsagnir sem borist hafa þinginu hvort heldur er frá sérfræðingum, þeim sem starfa í greininni, sérfræðingum við háskólana, endurskoðendafyrirtækjum, ríkisbankanum Landsbankanum, Alþýðusambandi Íslands eða sveitarfélögunum, allar eru þær á einn veg, allt ábendingar um hversu stórgallað þetta mál er. Þá þarf það kannski ekki að koma að öllu leyti á óvart að menn veigri sér við að verja málið en þá ættu þeir a.m.k. að sjá sóma sinn í að draga það til baka og gera á því nauðsynlegar lagfæringar.