140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sams konar lýsingu og hv. þingmaður las upp úr blaðagrein eftir hæstv. ráðherra er að finna í greinargerðum með frumvörpunum. Þar er raunar gengið enn lengra í lýsingu á þeim markmiðum sem frumvörpunum er ætlað að ná. En ekkert af þeim markmiðum sem þar er lýst fæst staðist miðað við umsögn sérfræðinga um frumvörpin. Þvert á móti lýsa sérfræðingarnir því að frumvörpin munu hafa þveröfug áhrif miðað við allt önnur áhrif en lýst er í markmiðum. Auðvitað viljum við öll að það kerfi sem notað er til að stýra íslenskum sjávarútvegi sé til þess hannað að skapa sem mestan arð fyrir samfélagið. Við hljótum öll að vilja það. En ef menn hlusta ekki á sérfræðinga og ábendingar þeirra í þessu tilviki, því að það er alveg borðleggjandi að breytingarnar sem fyrirhugaðar eru af hálfu hæstv. ríkisstjórnar eru til þess fallnar að draga úr ávinningi samfélagsins af sjávarútveginum, þá fylgir hugur ekki máli. Þegar maður les markmiðslýsinguna með frumvörpunum og ber hana saman við álitin sem atvinnuveganefnd bárust vegna frumvarpanna þá hljómar markmiðssetningin einfaldlega eins og öfugmælavísa.