140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hygg að þingmenn séu þokkalega upplýstir um það hvenær fundur hófst í dag enda var ekki spurt um það. Það var spurt um það hversu lengi þingfundur ætti að standa. Ástæðan er þekkt, það er ekki til staðar starfsáætlun fyrir þingið, hún er fallin úr gildi. Ég held að allir sem fylgst hafa með viti af hverju það er. Það er mikilvægt fyrir þingmenn, frú forseti, að gera sér grein fyrir því hversu lengi fundur verður, ekki síst þannig að þingmenn geti mætt hressir og kátir í fyrramálið, haldið áfram þeirri skemmtilegu og athyglisverðu umræðu sem hér er í gangi. Því tek ég undir orð hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur þegar hún spyr hvað þessi fundur eigi að standa lengi inn í nóttina þannig að þingmenn geti í það minnsta látið vita heima hjá sér hvenær von er á þeim.

Hitt er svo annað mál, frú forseti, að allir sem fylgjast með þessari umræðu vita líka að kvöldfundir eru ágætir til þess að upplýsa (Forseti hringir.) stjórnarþingmenn sem eru í salnum um þessa umræðu. Vitanlega þakka ég þeim fyrir að vera hér og hlusta á okkur.