140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti sem nú stýrir fundi virðist hafa misst af skýringum mínum áðan undir liðnum um fundarstjórn forseta þar sem ég benti hæstv. forseta á, eftir að hann sagði okkur hv. þingmönnum hversu margir væru á mælendaskrá, að það væri mjög mikilvægt að umræðurnar skiluðu árangri, að hér ætti sér stað rökræða, að stjórnarliðar væru á staðnum, ekki hvað síst hæstv. forsætisráðherra, til að fylgjast með umræðum og taka þátt í þeim. Annars er hættan sú að þessi langi listi sem hæstv. forseti nefndi tali fram eftir kvöldi eða nóttu og svo skráir fólk sig einfaldlega aftur á mælendaskrá til að endurtaka það sem það sagði hér um miðja nótt vegna þess að enginn var að fylgjast með.

Það er mjög mikilvægt, virðulegur forseti, að við högum vinnunni þannig að hún skili árangri. Það eitt að moka upp úr skurði og ofan í hann aftur er ekki árangursríkt. (Forseti hringir.) Á sama hátt er ekki árangursríkt ef virðulegur forseti (Forseti hringir.) lætur þingmenn tala um miðja nótt en engin rökræða á sér stað.