140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er kannski ekki alveg sammála því að hér sé um að ræða verkfræðilegt vandamál. Öllu heldur er þetta hagfræðilegt vandamál sem gerir málið kannski enn flóknara. Hér erum við að tala um mannlega hegðun sem er ærið flókin. Það sem við hv. þingmaður erum sammála um er að úrlausnarefnið er að búa til kerfi sem hámarkar arðinn af þessari auðlind. Þannig hef ég alltaf skilið textann í lögunum um að fiskstofnarnir séu sameign þjóðarinnar, þ.e. að hér sé sú hugsun að ríkisvaldið hafi á því forræði, geti ákveðið heildarafla, reglur um notkun veiðarfæra og annað slíkt til að leggja þar með sitt af mörkum til að hámarka arðinn af þessu en síðan sé það einstaklinganna og fyrirtækja þeirra að sækja þetta og það sé gert á grundvelli þess að sóknarrétturinn sé séreign. Þetta er mín afstaða.

Ég tel það síðan annað úrlausnarefni (Forseti hringir.) hvernig menn skattleggja þetta en ég stend mjög fast á því að þær hugmyndir sem fram hafa komið í þessu frumvarpi séu ekki mjög góðar (Forseti hringir.) til þess.