140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Fram hefur komið í umsögnum fjármálafyrirtækja að þau telja að frumvarpið um veiðigjöld geti haft veruleg áhrif á stöðu þeirra, stöðu fjármálafyrirtækjanna og þá væntanlega virði þeirra. Mörg sveitarfélög hafa sent inn athugasemdir þar sem þau lýsa miklum áhyggjum af áhrifum á samfélögin sem þau sveitarfélög eru með á sínum herðum, ef má orða það þannig. Þannig mætti áfram lengi telja.

Þar af leiðir hljóta áhrif, ef maður tekur mark á þeim umsögnum sem mér sýnist reyndar að stjórnarliðar geri ekki, en ef við tökum mark á þeim þá hljótum við að ætla að það sé mikil hætta í þeim fólgin og sér í lagi á þessu veiðigjaldafrumvarpi fyrst við erum að ræða það hér, að verulega hætta sé fólgin í frumvarpinu fyrir þessa aðila, sem hlýtur þá að hafa veruleg áhrif út í allt efnahagslífið. Ef þessir aðilar sjá strax þá hættu sem felst í frumvarpinu, ég fæ ekki séð að þessi áhrif hafi verið metin sérstaklega nema af þeim sérfræðingum sem … (Forseti hringir.)