140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:54]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er löng vegna þess hversu illa þetta frumvarp var búið þegar það kom til þings. En ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins upp úr þessu áliti sem var verið að vísa til. Í fyrsta lagi stendur hér í áliti ASÍ, með leyfi forseta, að tryggja þurfi í þessum útreikningum bæði eðlilega endurfjárfestingu og ávöxtun á eigið fé.

Ef haldið er áfram að lesa, hvað kemur þá í ljós, virðulegi forseti? Þar leggur ASÍ til vegna þessa að „skipaður verði hópur sérfræðinga til að meta áhrif veiðigjaldsins á greinina og gengið“ — eins og ég talaði um í ræðu minni að mikilvægt væri að gera — „til langframa áður en ákvörðun verði tekin að ganga alla leið með 70% hlutdeild.“

Af hverju skyldu þessir varnaglar vera slegnir? Vegna þess að verið er að benda á að málið er ekki fullbúið, menn treysta sér ekki að mæla með því. Ég kallaði eftir hvort einhverjir þeir hagfræðingar sem um þetta mál hafa fjallað hefðu sagt: Já, þetta mál (Forseti hringir.) eins og það er lagt fram er vel unnið mál og við treystum okkur til að mæla með því.

Þeir hagfræðingar sem hv. þingmaður vitnaði til gerðu það ekki.