140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann vakti máls á athyglisverðum þætti, þ.e. mögulegri breyttri hegðun útgerða, eða þeirra sem munu koma til með að greiða veiðigjaldið, í launamálum með það í huga að draga úr kostnaði vegna launa. Hvati væri falinn í kerfinu eins og það lítur út í frumvarpinu til að draga úr launakostnaði og þá væntanlega til að lækka laun með einhverjum hætti. Þetta er athyglisvert sjónarmið sem við ættum að velta fyrir okkur því að kjarabarátta sjómanna í dag snýr að því að útgerðin í þessu tilfelli er að krefja sjómenn um aukna þátttöku í olíukostnaði og rekstri skipanna. Árið 1994 eins og rifjað var upp í gær voru sett bráðabirgðalög á sjómenn vegna ásóknar útgerða á þeim tíma í að láta sjómenn kaupa aflaheimildir á skip. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji þetta líklegt og að hætta sé fólgin sérstaklega þá fyrir sjómannastéttina hvað þetta varðar, að útgerðir og greiðendur veiðigjalda muni sækja í það (Forseti hringir.) að lækka laun sjómanna með þessum hætti eins og hann vakti máls á í upphafi ræðu sinnar.