140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari umræðu. Það kemur alltaf eitthvað nýtt í ljós og því miður í mínum huga verður það sífellt verra og verra.

Í fyrsta lagi var ég að tala um hvort einhver önnur leið væri út fyrir kassann, að menn hugsi ekki svona fastir í þeim kassa sem þeir eru komnir í núna eftir áratugavinnslu með kvótakerfi sem byggir á alls konar hömlum vegna þess að það var aldrei sátt um eignarhaldið. Framsalið var takmarkað, menn þurftu að veiða helminginn af aflanum. Útgerðarmenn voru auk þess í félagslegu banni. Þeir gátu í rauninni ekki selt kvóta frá byggðarlaginu þótt það hefði verið skynsamlegt fyrir alla aðila vegna þess að þá hefði byggðarlagið orðið veikt. Það hafa því verið mjög lítil viðskipti með kvóta þó að það séu réttindi sem eiga að ganga kaupum og sölum nákvæmlega eins og hvað annað. Þess vegna myndast ekki verð hvorki fyrir varanlegar heimildir né leiguheimildir sem er á einhverju skynsamlegu róli.

Fyrir mörgum árum skrifaði ég grein, ég má ekki eyða miklum tíma, frú forseti, tíminn er stuttur, þar sem ég spurði af hverju útgerðin vildi ekki græða. Þá hefði Grandi getað leigt helminginn af kvótanum sínum og jafnvel skipin og áhafnir með og getað fimmfaldað hagnaðinn sinn ef þeir hefðu á þeim tíma leigt helminginn sem þeir máttu. Og maður spyr sig: Af hverju gerðu þeir það ekki? Kannski til að halda verðinu uppi, leiguverðinu, kannski til að forðast samkeppni á markaði til að fá ekki nýja menn inn því að þá mundi verðið lækka, kannski til að halda uppi verði á varanlegu heimildunum, vegna þess að leiguheimildirnar eru eins konar ávöxtun af varanlegu heimildunum. Þetta var allt saman mjög slæmt.

Ég ætla að ræða 9. og 10. gr. ítarlega og líka ákvæði til bráðabirgða og breytingartillögur nefndarinnar vegna þess að í þessu eru ákveðnar gildrur. Gerðar eru breytingar á 9. gr. sem eru í sjálfu sér eðlilegar og líka á 7. gr. þar sem almenna veiðigjaldið er hækkað í 9,5 kr. og síðan eru gerðar smábreytingar á 8. gr. en það er 9. gr. sem er athyglisverð. Þegar maður les þetta í gegn fær maður á tilfinninguna hvernig staðan var í Sovétríkjunum. Einhverjir embættismenn í skrifstofum ákveða fyrir allt atvinnulífið, í þessu tilfelli sjávarútveginn, nákvæmlega hvað eigi að reikna, hvað eigi ekki að reikna og hvernig eigi að gera það. Vandinn við þetta allt saman er að þetta eru meðaltalstölur, frú forseti, og þær taka ekkert tillit, mundi ég segja, til þeirra sveiflna sem geta orðið á markaði, í veiðum og ég veit ekki hvað, til dæmis í olíuverði. Fram kom á ágætum fundi í fyrradag að veiðar á gulllaxi borguðu sig ekki vegna mikils olíukostnaðar og verðið væntanlega lágt. 9,5 kr. gjald getur þýtt það að veiðar leggist hreinlega af þó að þær væru kannski skynsamlegar engu að síður.

Það gæti verið dúndurhagnaður umfram þorskígildi. Nú er þorskígildi tilraun til að meta arðsemi mismunandi fisktegunda en þorskígildið er mjög ósveigjanlegt. Það tekur ekki gildi fyrr en næsta ár og það vill svo til, frú forseti, fyrir þá sem þekkja rekstur að hann er stöðugt að breytast, hann breytist dag frá degi.

Það gætu orðið einhver ósköp í Evrópu og verð lækkað á vörum þannig að lúxusvara, sem fiskurinn okkar er orðinn, þökk sé frábærum starfsmönnum markaðsdeilda sjávarútvegsfyrirtækjanna, seljist ekki og menn neyðist til að lækka hana allverulega. Hvað gerir þetta frumvarp í sambandi við það? Það heldur áfram að leggja á gjöld miðað við síðasta ár. Það eru meira að segja settar niður krónutölur í breytingartillögum meiri hlutans, það skal greiða 33,08 kr. á hvert þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum á fiskveiðiárinu 2012/2013, alveg burt séð frá því hvernig markaðsstarfið gengur eða hvernig þetta gengur allt saman. Það kemur kerfinu bara ekkert við, menn skulu borga. Þetta getur þýtt, frú forseti, að skattlagningin drepi viðkomandi stofn. Þess vegna spurði ég hæstv. fjármálaráðherra að því um daginn hver væri teygni þessara gjalda og það vill svo til að teygnin er engin, þ.e. gjaldið gefur tekjur, alveg sama hvað gerist af því að það er ákveðið þorskígildistonn þangað til grundvöllurinn brestur. Þá hrynur gjaldið allt í einu. Það getur gerst í einstökum tegundum, eins og rækju og gulllaxi, að kostnaðurinn við veiðarnar verði svo mikill að það borgi sig ekki af því að menn þurfa að borga 9,5 kr. í grunngjaldið. Síðan á að borga fastar greiðslur, 33,08 kr. á næsta ári sem byrjar í september og gildir allt næsta ár, borga á 33,08 í hvert þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum burt séð frá öllu öðru. Ég hef ekki tíma til að ræða þetta meira, frú forseti, vegna þess að ég ætla að koma inn á annað.

Hvers vegna hrundu Sovétríkin, frú forseti? Það tengist spurningunni sem ég var með í upphafi umræðunnar. Hver ákveður verð á brauði? Hvernig myndast verð á brauði? Það er ekki ákveðið af innanríkisráðherra eða landbúnaðarráðherra, það er markaðurinn, hann ákveður verðið á brauði. Hér er verið að gera eitthvað allt annað. Hér er verið að ákveða verð á vöru burt séð frá öllum sveiflum á markaði og burt séð frá öllu yfirleitt, löngu seinna en upplýsingar koma fram o.s.frv.

Sovétríkin hrundu vegna þess að ekki er hægt — það er almennt viðurkennt að ekki sé hægt að finna rétt verð á brauði. Það er hreinlega ekki hægt. Það væri kannski hægt ef menn settu mikinn kraft í það að finna rétt verð á brauði en hvað þá um allar hinar vörurnar, handklæði, sápu og ég veit ekki hvað, bíla og bensín. Hver ákveður verðið á því?

Sovétríkin hrundu vegna þess að markaðurinn virkaði ekki, það var enginn markaður. Það er það sem við byggjum á, það er markaður sem ákveður verð á öllum vörum. Þetta frumvarp tekur ekki mið af því.

Frú forseti. Það er eitt sem ég rak augun í. Í hinu frumvarpinu sem ekki má ræða er gert ráð fyrir við framsal að 3% hverfi í ákveðinn sjóð en mér sýnist að það megi ekki draga það frá í þessu frumvarpi. Það þýðir að menn munu ekki framselja. Það kemur ekki fram sem rekstrargjöld í þessu frumvarpi því ekki er talað um það sérstaklega og mér líst illa á það. Ég bið hv. nefnd og hæstv. sjávarútvegsráðherra að svara því hvort megi ekki draga það frá. Og hvar er sagt að draga megi frá þessi 3% sem hverfa frá kaupanda og seljanda? Seljandi borgar náttúrlega bara 97 kíló af hverjum 100 og kaupandinn tapar þremur kílóum. Getur hann dregið það frá kostnaðinum?

Þegar ég lít yfir þetta allt saman þá er það skelfilegt. Menn eru að reyna, bæði nefndin og þeir sem sömdu frumvarpið, að sjá fyrir alla möguleika eins og þeir hafi svakalega mikið vit á þessu öllu saman og viti meira að segja hvað gerist í framtíðinni þegar verðsveiflur verða o.s.frv. þar sem sérstaklega sveiflukenndi skatturinn gæti rústað greininni.