140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er skemmtileg tilbreyting að þurfa að óska sérstaklega eftir því að svara andsvari en við aðlögumst þessari nýju reglu eins og öðru.

Vissulega mun svona skattlagning hafa mikil áhrif á virði fyrirtækja, stórkostlega mikil áhrif. Þetta er það mikil blóðtaka í rekstrinum hjá fyrirtækjum, þau þurfa allt í einu að fara að borga tugi milljarða til ríkisins sem þau gerðu ekki áður. Það mun að sjálfsögðu hafa áhrif á virði fyrirtækjanna, á starfsmannafjöldann, launakjör o.s.frv. Svona fyrirtæki eru nefnilega lifandi. Þetta er ekki excel-skjal þar sem menn geta breytt einni formúlu og þá breytist ekkert annað. Allt fyrirtækið er lifandi og breytist þegar það verður fyrir áreiti þannig að verð á hlutabréfum mun lækka, líka verð í þeim fyrirtækjum sem þetta fyrirtæki þjónustaði, t.d. netagerðir. Þeir aðilar munu ekki geta vænst þess að fá eins ríflega greitt fyrir þjónustu sína og hingað til. Hugsanlega verður eitthvað skorið niður.

Svo gerist sitthvað fleira sem ég komst ekki inn á áðan. Það verður náttúrlega aukið brottkast þegar krónugjöld bætast ofan á hvert kíló. Þetta mun hafa mjög mikil áhrif. Það sem ég tek undir sem hefur komið fram í kvöld, sem er nýtt í umræðunni, er spurningin hvaða áhrif þetta muni hafa á heimilin í landinu, heimilin sem vinna hjá þeim fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn, heimilin þar sem eru sjómenn, heimilin sem tengjast útgerðinni beint eða óbeint. Heilu sveitarfélögin munu verða fyrir tekjufalli og þurfa þá að segja upp starfsmönnum og minnka þjónustu þannig að þetta hefur óskaplega víðtæk áhrif. Þess vegna sé ég ekki eftir þeim tíma sem við eyðum í að ræða kosti og galla þessara frumvarpa.