140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða ræðu og hlakka til að heyra framhaldið sem verður hugsanlega á eftir, annars á morgun. Ég hefði áhuga á að heyra álit hv. þingmanns á spurningu sem ég spurði hv. þm. Illuga Gunnarsson áðan. Kannski er þetta fullbjartsýnislegt mat hjá mér en ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að byggja þátt í þessu máli á þeirri staðreynd að hönnun fiskveiðistjórnarkerfisins sé nánast verkfræðilegt úrlausnarefni. Menn gætu komið sér saman um að kerfið ætti að vera til þess fallið að hámarka ávinning samfélagsins af sjávarútvegi. Raunar tel ég að taka eigi með í reikninginn hluti eins og byggðamál, hv. þingmaður er kannski ekki alveg sammála mér um það, en ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að hægt sé að byggja sátt í þessu máli á að nálgast það á þann hátt sem ég lýsi nú: Allir sammælist um að markmiðið með fiskveiðistjórnarkerfinu og skattlagningu sjávarútvegsfyrirtækja eigi að vera að hámarka ávinning samfélagsins af greininni. Það þýðir að sjálfsögðu að fyrirtæki í þessari grein verða að eiga möguleika á því að skila hagnaði. Ef hann er ekki til staðar er mjög erfitt að fá hæfa menn til að starfa í greininni, það væri erfitt að fá fólk til að taka áhættu, ráðast í nýsköpun og slíkt, en meginmarkmiðið á að vera að hámarka ávinning samfélagsins af greininni. Liður í því er að gera mönnum kleift að reka fyrirtæki í sjávarútvegi með hagnaði.

Deilir hv. þingmaður með mér þeirri skoðun að við eigum að reyna að setja þetta mál í þann farveg með aðstoð þeirra sem best þekkja til á þessu sviði, sérfræðinga, að hanna einfaldlega (Forseti hringir.) það kerfi sem skilar samfélaginu mestum ávinningi?