140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við á Vesturlöndum höfum markað til að gera þetta sem hv. þingmaður nefndi. Þetta er allt saman göfugt og rétt en það að setja einhverja sérfræðinga í að reikna út og hafa það markmið að það sé eins mikil arðsemi af greininni og hægt er o.s.frv. er gert með markaði. Það sem vantar í kerfið í dag er einmitt markaður. Menn vita ekki einu sinni markaðsverðið á varanlegum heimildum í dag. Menn vita ekki markaðsverðið á leiguheimildum. Þetta er alveg rígbundið í dag og þetta kerfi gerir það enn þá verra. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég hef enga trú á því að einhverjir sérfræðingar geti sett saman excel-skjal og reiknað út verð á til dæmis gulllaxi eða rentuna af honum. Ég held að það sé langbest að koma með allsherjarmarkað í þessu þannig að fiskveiðihlutdeildin verði fyrst markaðssett, öll hlutdeildin, og þá þarf að mynda framboð og eftirspurn á þeim markaði. Þar er vandinn af því að ríkið getur ekki verið annar aðilinn að því, ríkið tekur bara til sín það sem það þarf alla tíð. Ríkið getur aldrei orðið hluti af markaði.

Þegar hlutdeildinni er breytt yfir í aflamark á hverju ári myndast verð á því, þetta mikið fyrir gulllax, mjög lágt af því að olían er svo dýr, þetta mikið fyrir þorsk, mjög hátt af því að verðið er svo hátt. Markaðurinn ræður þessu og ákveður verð nákvæmlega eins og á brauði. Þetta er einmitt fólgið í því frumvarpi sem ég lagði fram sem hugmynd að lausn. Ég held að menn þurfi að fara að hugsa út fyrir boxið.