140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einmitt vandinn og til þess að leysa þennan vanda verðum við að brjótast út úr þeim viðjum sem hugsun okkar er bundin í varðandi núgildandi kerfi og það kerfi sem við erum að byggja hér upp. Þetta kerfi byggir á því að einhver viti allt fyrir fram. Leikjafræði eða markaður má ekki vita allt fyrir fram af því að allar forsendur breytast á hverri einustu sekúndu. Það breytist verð í Frakklandi, það breytist verð á olíu, það breytist verð á skipum o.s.frv. og um leið og það gerist bregst markaðurinn við. Þingmenn, ráðherrar og starfsmenn ráðuneyta geta ekki brugðist við af þvílíkum hraða eins og þarf að gerast á markaðnum. (Sjútvrh.: Jú.) Jú, segir hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það er akkúrat hugsunin, það er akkúrat vandamálið. Hann telur sig virkilega geta séð fyrir alla þætti þjóðfélagsins eins og gerðist í Sovét, (Gripið fram í.) en eins og kunnugt er hrundi Sovét. (KLM: Við sjáum nú ekki allt.) Markaðurinn sér það en við sjáum það ekki, það er hárrétt frammíkall. Markaðurinn gerir vissulega mistök, fyrirtæki fara á hausinn, menn misreikna sig o.s.frv. en að meðaltali gengur það vel. Þessi atvinnugrein á heilmikið inni af því að hún þarf að rogast með gífurlegar viðjar í dag, bann við framsali, hún þarf að gera þetta og hitt, menn þurfa að læra lögfræði til að gera út trillu o.s.frv. Ef við losnum við þessar viðjar af þessari grein mun hún skila þessari þjóð margföldum arði, eða ég segi kannski ekki margföldum en miklu meiri arði en er í dag.