140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir ræðu hennar sem var um margt ágæt. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að sjávarútvegur á Íslandi sé rekinn með sjálfbærum og arðsömum hætti en svo hefur því miður ekki alltaf verið eins og hv. þingmaður rifjaði ágætlega upp.

Jafnvel þó að það frumvarp sem við erum að ræða hefði tekið gildi fyrir árið í ár hefði framlegðin sem eftir hefði verið hjá sjávarútveginum, eftir að búið væri að taka veiðigjald, aðeins í tvígang í sögu þjóðarinnar orðið hærri, þ.e. á árunum 2011 og 2009 að jöfnu við árið 2010. Fjárfestingar í sjávarútvegi hafa aukist umfram það sem gerist í öðrum atvinnugreinum frá hruni. Það er hvergi meiri bjartsýni en í sjávarútvegi eins og kom fram í nýlegri könnun frá Gallup fyrir örfáum vikum þar sem aðilar í sjávarútvegi reiknuðu með að fjárfesta þrefalt á næsta ári miðað við það sem hefur verið gert hingað til. Það er því ekki svartsýni í greininni.

Hv. þingmaður segir að ríkið eigi ekki að vera að vasast í þessu. Það vill svo til að þjóðin eða ríkið á auðlindina sem um ræðir. Þess vegna er aðkoma ríkisins að þessu máli öllu óhjákvæmileg.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvaða skoðun þingmaðurinn hefur á þeirri aðferðafræði sem felst í frumvarpinu varðandi álagningu veiðigjalds, annars vegar að setja á fast gjald sem tekur mið af því að standa undir kostnaði við rekstur greinarinnar og hins vegar gjald sem er nátengt arðseminni í greininni, fylgir henni (Forseti hringir.) upp og niður eftir því hvernig gengur.