140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:50]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því að þingmaðurinn svaraði ekki spurningu minni um það hvort henni væri ekki fyllilega ljóst að 90% af núverandi aflaheimildum verða áfram í höndum sömu aðila. Það er ekki verið að taka þær frá þeim. Ég var einungis að reyna að skilja frekar óskýra ræðu þingmannsins um réttlæti. Hún hefur útskýrt það og skilningur minn hefur vaxið sem því nemur.

Þá er ég með tvær spurningar handa þingmanninum, í fyrsta lagi: Telur þingmaðurinn að 30% skattar séu ofurskattar?

Það varð um 47 milljarða hagnaður af útgerðinni fyrir skatta á árinu 2010, 402 útgerðarfyrirtækja. Seinni spurningin er þá: Getur þingmaðurinn, af því að hún talaði um þetta sem landsbyggðarskatt, upplýst mig um það hve hátt hlutfall af þeim rekstrarafgangi var fjárfest í heimabyggð? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Hve stór hluti hagnaðarins var fjárfestur í Reykjavík og hve stór hluti var fjárfestur (Forseti hringir.) erlendis?