140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað alltaf leiðinlegt að þurfa að endurtaka það sem maður hefur sagt áður. Ég hafði hugsað mér að forðast það af því að af nógu er svo sem að taka í þessari umræðu um veiðigjöldin. Ég hef komist yfir lítinn hluta af þeim atriðum sem ég hafði áhuga á að dvelja við í þeirri ræðu sem ég held að þessu sinni en ég neyðist samt sem áður til að fara inn í þá umræðu sem hv. þm. Magnús Norðdahl hóf hér áðan. Hann velti fyrir sér spurningu sem hefur gengið í gegnum umræðuna af hálfu ýmissa stjórnarliða, ekki allra, sem eins konar rauður þráður. Þeir segja að það hafi myndast gríðarlegur gróði í sjávarútveginum, það var gróði í sjávarútveginum fyrr meir en vandinn er sá að útgerðarmenn kunna ekki fótum sínum forráð. Þeir fóru í að fjárfesta utan greinarinnar í stórum stíl, töpuðu lifur og lungum og þess vegna er svo illa komið fyrir sjávarútveginum. Þetta er nokkurn veginn kenningin sem haldið er fram.

Í spurningum hv. þingmanns til hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur áðan fólst þessi hugmynd og hv. þingmaður spurði: Hvað varð um 47 milljarða hagnað af útgerðinni? Ég kannast ekki við þá tölu, ég gæti trúað að það stappaði nærri þegar við tölum um framlegðina. Það hefur verið sagt að framlegðin á árinu 2011 hafi verið 75 milljarðar kr. af útgerð og fiskvinnslu. Látum það liggja á milli hluta en það sem að baki býr hjá hv. þingmanni var að hann var að velta fyrir sér hversu mikið hefði verið fjárfest í fyrirtækjunum aftur, hversu mikið í Reykjavík og hversu mikið í útlöndum. Þá er hv. þingmaður væntanlega að reyna að leiða fram að sjávarútvegurinn hafi fjárfest mikið utan greinarinnar.

Eins og ég hef í fyrsta lagi áður rakið er ekkert að því í sjálfu sér þótt sjávarútvegur fjárfesti ekki bara í sjávarútvegi, ekki frekar en nokkuð er að því að tryggingafélög fjárfesti til dæmis í sjávarútvegi, olíufélög í sjávarútvegi eða iðnaðarfyrirtæki í verslun. Það er ekkert að því og þær fjárfestingar geta skilað arði inn í fyrirtækin, þær geta líka dreift áhættu. Þær geta haft margvísleg áhrif og stundum fer auðvitað líka illa vegna þess að menn geta sett sig í þá stöðu að fjárfesta þar sem arðurinn skilar sér ekki til baka af fjárfestingunni.

Þetta er það fyrsta. Síðan má auðvitað tína til margt annað. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mjög mörg orð um þetta vegna þess að ég hef áður farið nokkuð sæmilega yfir það. Það hefur verið sýnt fram á að hin stóra goðsögn um að sjávarútvegurinn hafi í gegnum tíðina fjárfest svo mikið utan greinarinnar að það sé að kafsigla fyrirtækin í skuldum er röng. Það eru dæmi um að menn hafi fjárfest í stórum stíl utan greinarinnar, hætt bæði sínu fé og kannski eignum sjávarútvegsfyrirtækjanna að einhverju leyti og þá munu menn auðvitað gjalda þess ef þessar fjárfestingar skila sér ekki til baka. Það er hins vegar ekki stóra vandamálið varðandi sjávarútveginn í dag.

Ég hef undir höndum skýrslu sem Landsbanki Íslands lagði fyrir atvinnuveganefnd þegar Landsbankinn kynnti okkur mat sitt á þessu frumvarpi og raunar stóra fiskveiðifrumvarpinu líka. Hann hafði skoðað sérstaklega hverjar afleiðingarnar yrðu af öllu þessu klabberíi ef það yrði samþykkt og niðurstaðan varð sú að af ástæðum frumvarpanna, ef þau yrðu að lögum, yrði Landsbankinn að afskrifa um 31 milljarð kr. af bókfærðu virði lána sem hann hefur veitt sjávarútveginum, afskriftir sem hann ella þyrfti ekki að framkvæma. Það er út af fyrir sig mjög alvarlegt. En hann skoðaði líka goðsögnina, velti fyrir sér hversu stór hluti af þessum lánum væri lán vegna fjárfestinga utan kjarnastarfsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna. Niðurstaðan er eftirfarandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Af 31 milljarðs áætluðum afskriftum eru ríflega 98% skuldanna vegna fjárfestinga í kjarnastarfsemi en 1,5% vegna fjárfestinga í óskyldum rekstri/fjármálagerningum.“

Það gætu verið skuldabréf eða aðrir skyldir hlutir. Með öðrum orðum er niðurstaða Landsbankans ákaflega skýr. Vandamálið er ekki þetta og ég held þess vegna að við eigum í nafni þess að við viljum ræða þessi mál efnislega að leggja til hliðar þessa umræðu að sinni og dvelja við staðreyndirnar sem lúta að sjávarútveginum, þær að sjávarútvegurinn hefur auðvitað verið og er skuldugur. Skuldirnar eru hins vegar mjög misjafnar eftir greinum og eftir fyrirtækjum. Aðstæður hafa verið misjafnar á síðustu árum, þær hafa til dæmis verið betri í uppsjávarveiðinni en bolfiskinum. Það hefur skilað sér í því að uppsjávarfyrirtækin hafa greitt tiltölulega hratt niður sín lán. Við vitum líka að nýliðarnir í sjávarútveginum hafa haft minni tækifæri og skemmri tíma til að greiða niður sínar skuldir. Staða þeirra er þess vegna örugglega erfiðari.

Ég hef áður vakið athygli á því að við höfum heilt fiskveiðistjórnarkerfi sem er krókaaflamarkskerfið, nýtt kerfi þar sem skuldirnar eru miklar, þar sem menn eru kannski í mjög svipaðri stöðu og aflamarkskerfið var í fyrir 10–12 árum. Þá datt engum í hug að setja svona mikil veiðigjöld á útgerðina vegna þess að mönnum var ljóst að kostnaðurinn af hagræðingunni sem hefði átt sér stað með kaupum á aflaheimildum og sameiningu fyrirtækja og skipa væri enn til staðar í fyrirtækjunum. Þess vegna væri erfitt að ætla sér að setja á þau mikil veiðigjöld. Þetta má segja að meiri hluti atvinnuveganefndar hafi viðurkennt með þeirri breytingartillögu sem meiri hluti nefndarinnar kynnir.

Hv. þingmaður kom inn á annað í andsvörum áðan sem mig langar að blanda mér aðeins inn í, almennar vangaveltur um veiðigjöldin. Það er alveg rétt að ASÍ sér sitthvað jákvætt við þessa framsetningu veiðigjaldanna en þeirra stóra athugasemd við þetta var, eins og hv. þingmaður nefndi, þessi aðferð við framreikning á vísitölu. Það er stóra höfuðsyndin í þessu máli öllu saman við undirbúning þess að þetta frumvarp er lagt fram með þessari meinlegu og stóru villu að sé frumvarpstextinn lesinn bókstaflega leiðir það til þess að veiðiskattarnir verða ekki 24–25 milljarðar miðað við útreikning á forsendum ársins 2010, eins og gengið er út frá í greinargerð frumvarpsins, heldur leiðir hún til 50 milljarða skattlagningar. Ég hygg að allir hljóti að vera sammála um að það er galið enda er horfið frá þessu í frumvarpinu. Þó treysta menn sér ekki til að ganga lengra en svo að það má segja að ákvörðun um það hvernig framtíðarfyrirkomulagið eigi að vera sé sett dálítið á bið. Gjaldið er hækkað meira og minna út frá núverandi forsendum upp í þær tölur sem við höfum áður rætt en hinu vísað dálítið mikið inn í framtíðina, þó þannig að eftir sem áður er notuð þessi gallaða arðgreiðsluaðferð og síðan gert ráð fyrir því að hin alvitra veiðigjaldsnefnd muni sjá um að redda málunum fyrir ríkisstjórnina þegar lengra fram í sækir.

Það sem er svo sérkennilegt aftur á móti við þetta allt saman er að ábending um að það sé háskalegt að fara þessa leið með vísitölubótum á útreikninga frá fyrri árum er ekki ný af nálinni. Þetta er ekki eitthvað sem bara kom fram í skýrslu sérfræðinganna tveggja sem unnu fyrir atvinnuveganefnd. Þetta hefur að vísu fengið meira vægi í umræðunni núna en áður en hins vegar benda þessir sérfræðingar einmitt á í athugasemdum sínum að nákvæmlega þetta atriði hafi verið gert að umtalsefni í stóru skýrslunni sem unnin var fyrir ríkisstjórnina eftir að frumvarpið var lagt fram í fyrra, í tíð hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar, þar sem sú nefnd, undir forustu Axels Halls með þátttöku margra valinkunnra sérfræðinga, komst að þeirri niðurstöðu að einmitt þessi alvarlegi ágalli hafi áður verið til staðar. Í þessari skýrslu Axels Halls og fleiri er sérstakur kafli helgaður þessu atriði. Þá hefði maður getað ímyndað sér að þeir sérfræðingar sem ríkisstjórnin kvaddi til, Indriði H. Þorláksson og Helgi Hjörvar, sem taldir voru helstu sérfræðingar ríkisstjórnarinnar eða ríkisstjórnin mat það svo að þar væri helst upplýsinga að vænta um þessi mál og kallaði þess vegna til þá tvo ásamt embættismanni sem ég veit ekki hver er, hefðu þá að minnsta kosti farið í þessi gögn úr skýrslu Axels Halls þannig að menn færu ekki tvisvar sinnum ofan í sama pyttinn. Það er eitt að lenda ofan í honum einu sinni, og það getur maður alveg skilið, allir hafa lent í því að setja fram hugmyndir sem ekki ganga upp, en það er hins vegar verra að það sé gert eftir að búið er að sýna í ítarlegri skýrslu fram á hvar hættuboðarnir eru, hvar menn þurfa að vara sig. Þess vegna veldur það manni sárindum og gremju, a.m.k. vonbrigðum, þegar við stöndum frammi fyrir því að nú sé búið að tvítaka vitleysuna. Þó má segja meiri hluta hv. atvinnuveganefndar til hróss að (Forseti hringir.) í þriðju tilraun, núna þegar málið er að koma til 2. umr., er búið að afstýra því að menn lendi aftur ofan í þennan pytt.