140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:06]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég spyr vegna þess að ég er í svolitlum vafa um hvort það sé nákvæmt samhengi á milli skuldastöðu útgerðanna í einstökum bönkum, hvort það sé endilega samhengi á milli hennar og þess hvernig útgerðir fjárfestu t.d. ágætan hagnað sem þær höfðu á árinu 2010. Ég er ekki alveg viss um það. Þess vegna leita ég svara vegna þess að svo margir stjórnarandstöðuþingmenn fullyrða að þessir peningar séu í dag fjárfestir að meginhluta til í heimabyggð og ef lögð sé á auðlindarenta sé það bara skattur sem verður tekinn af landsbyggðinni. Ég hef ekki séð neinar upplýsingar sem benda til þess að þetta sé rétt.

En af því að þingmaðurinn vísaði til þeirrar aðferðafræði sem Alþýðusambandið mælir með, þá er það rétt. Þeir segja: Þetta er góð aðferð við að nálgast auðlindarentuna, en þeir hafa verulegar efasemdir um ársgreiðsluna og þar eru þeir sammála þingmanninum og ég sé ekki annað en í (Forseti hringir.) þeim breytingartillögum sem liggja fyrir sé þetta leiðrétt.