140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vangaveltur hv. þingmanns um hvar fjárfestingin hafi átt sér stað frá árinu 2010 eru réttmætar. Aðaláhyggjuefnið í sambandi við þetta er hins vegar að fjárfestingin í sjávarútvegi frá þessum tíma hefur verið of lítil. Það helgast af ýmsu, svo sem óvissu varðandi skuldauppgjör gagnvart bönkunum og líka af hinni pólitísku óvissu sem hefur umlukið greinina. Ég held að allir hljóti að minnsta kosti að geta verið sammála um að það er ekki heppilegt. Við vitum að alveg frá árinu 2009 hefur ekki legið alveg ljóst fyrir hvernig rekstrarumhverfi sjávarútvegsins ætti að vera. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði að vonandi væri enginn maður svo vitlaus að honum dytti í hug að búa til rekstrarumhverfi sem væri kolómögulegt fyrir greinina. Það sem mér sýnist hins vegar blasa við af þessu frumvarpi, þó í minna mæli en þegar það var lagt fram upphaflega, og í stóra fiskveiðistjórnarfrumvarpinu er einmitt það að rekstrarumhverfi sjávarútvegsins verði vont þannig að hæstv. ráðherra hefur því miður ekki orðið að ósk sinni.