140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að flestir séu sammála um að við hljótum að ætla að byggja upp fiskveiðistjórnarkerfi sem hámarkar afrakstur í greininni. Síðan er það pólitísk spurning hvernig menn ætla að ráðstafa þeim afrakstri, þeim hagnaði, þeim arði.

Það er mjög margt sem kemur til álita þar. Menn geta farið þá leið að reyna að skattleggja tekjurnar og dreifa þeim skatttekjum á þann hátt sem þeir telja skynsamlegt. En við hljótum líka að hugleiða annað og það er að til staðar sé þannig arður að menn geti staðið undir eðlilegri fjárfestingu og ekki síður hinu, sem mér finnst stundum hafa farið halloka í þessari umræðu, og það er hvernig við getum bætt laun í sjávarútvegi. Það er verkefni sem sjávarútvegurinn ætti að vera að reyna að glíma við einmitt núna, hvernig hægt er að hækka laun t.d. hjá fiskverkunarfólki. Ég óttast að það að taka út úr greininni 15 milljarða kr. núna muni gera þá vinnu miklu erfiðari.