140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður hefur mikla reynslu eins og allir vita á þingi og af sjávarútveginum, bæði úr sinni heimabyggð vitanlega og sem ráðherra.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í helstu og mestu breytingar sem gerðar hafa verið á þessu kerfi okkar undanfarin ár. Hverjir hafa notið einna mest þeirra breytinga? Hverjum hafa þær skilað mest, þessar breytingar sem hafa verið gerðar? Þegar kerfið var sett fyrir um 30 árum gerðu menn sér grein fyrir því að það mundi að sjálfsögðu taka einhverjum breytingum en stóra myndin hefur að stærstum hluta haldið sér. Mig langar því að spyrja hv. þingmann út í það hverjir hafi notið einna helst þeirra breytinga sem gerðar hafa verið undanfarin ár eða áratugi.

Nú lásum við það í fréttum að lögin frá 2006 eru tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna fyrir það hversu vel þau eru úr garði gerð.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hafði því miður gleymt að stilla klukkuna en hv. þingmaður er kominn aðeins fram yfir.)