140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ljósi þeirra viðmiða sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir setti í andsvari sínu áðan geri ég ráð fyrir að fyrrverandi formaður míns flokks, Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, eigi von á afsökunarbeiðni, blómvendi og súkkulaðikassa frá hv. þingmanni og félögum hennar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og eflaust Samfylkingunni líka.

Hv. þm. Árni Johnsen nefndi fundinn sem haldinn var á Austurvelli í gær þar sem mörg hundruð sjómenn komu saman til að mótmæla frumvörpum ríkisstjórnarinnar og ég vil spyrja hann út í fréttaflutning af þeim fundi. Hv. þingmaður kom aðeins inn á hann, en meðal þess sem hefur verið haldið fram í fréttum, og raunar af hv. stjórnarliðum í þingsal líka, er að þar hafi verið stór hópur að mæla með frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Ég held að það hafi ekki verið margir, líklega enginn á Austurvelli, að mæla með frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Það voru að vísu einhverjir að mótmæla útgerðarmönnum en þeir hinir sömu (Forseti hringir.) voru að fara fram á allt aðra hluti en ríkisstjórnin leggur til í frumvörpum sínum.