140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi áðan hafa allmargir hv. þingmenn stjórnarliðsins haldið því fram að hluti þeirra sem staddir voru á Austurvelli í gær hafi verið að mæla með frumvörpum ríkisstjórnarinnar. En í frétt Ríkisútvarpsins um áform þessa hóps sem vísað er til segir, með leyfi forseta:

„Samtök íslenskra fiskimanna ætla að afhenda ríkisstjórninni áskorun á fundi sem haldinn verður á Austurvelli á morgun til að mótmæla fiskveiðifrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Grétar Mar Jónsson er formaður samtakanna:

„Við erum að óska eftir því að fá þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótann, í fyrsta lagi. Í öðru lagi viljum við fá frjálsar handfæraveiðar og í þriðja lagi viljum við aðskilja veiðar og vinnslu og svo viljum við fá allan fiskinn á fiskmarkað.““

Virðulegi forseti. Það var enginn á Austurvelli að mæla með tillögum þessarar ríkisstjórnar. Hins vegar voru, eins og hv. þingmaður bendir á, (Forseti hringir.) vel á annað þúsund sjómenn að mótmæla harkalega áformum ríkisstjórnarinnar.