140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:42]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var stórkostlegur fundur, þótt ekki væri nema vegna þess að þúsundir landsmanna komu til höfuðborgarinnar á skipum, rútum, einkabílum og flugvélum. Og það er alveg rétt að niðurstaðan í fréttaflutningi var að landsmenn voru virtir að vettugi af fréttastofum landsins, þeim sýnd lítilsvirðing og dónaskapur. Ekkert einasta atriði sem kom fram í flutningi þeirra var flutt í þessum fjölmiðlum, síst í Ríkisútvarpinu sjálfu. Þetta er ekki boðlegt. Þetta er til háborinnar skammar.

Þegar Arnar Hjaltalín, talsmaður verkafólks í Vestmannaeyjum, talaði um að það hefði verið mikið atvinnuleysi fyrir tíu árum í Vestmannaeyjum bauluðu þeir og þá sagði hann: Hvar voruð þið þá, baulararnir? (Forseti hringir.) Svo bætti hann svo við: Þið eruð ekki skörpustu hnífarnir (Forseti hringir.) í skúffunni.